Besta deildin: Þór/KA sækir Víkinga heim í dag

Þór/KA mætir liði Víkings á útivelli í fjórðu umferð Bestu deildarinnar í dag. Leikurinn hefst kl. 16.

Leikur liðanna í dag er fyrsta viðureign þessara liða í efstu deild Íslandsmótsins og raunar aðeins í annað skiptið sem þessi félög mætast sem slík í meistaraflokki. Fyrsta viðureignin var í vetur þegar félögin mættust í A-deild lengjubikarsins. Þeim leik lauk með 5-0 sigri Þórs/KA í Boganum. Víkingur var um árabil í samstarfi við HK og mættust Þór/KA og HK/Víkingur átta sinnum í efstu deild. Þór/KA fór með sigur af hólmi í öllum átta leikjunum, fyrst í maí 2008 og síðast í Kórnum í september 2019. 

Þór/KA er í 3. sæti Bestu deildarinnar með sex stig að loknum þremur umferðum, en Víkingar í 5. sætinu með fjögur stig. Eftir fyrstu leiki fjórðu umferðarinnar fór FH upp fyrir Víking með sigri sínum á Þrótti og Víkingur því í 6. sætinu sem stendur. 

Þór/KA vann Þrótt, 2-1, í Boganum í síðustu umferð, en Víkingar máttu þola 2-7 tap fyrir Val á Hlíðarenda í sömu umferð. Sigdís Eva Bárðardóttir og Hafdís Bára Höskuldsdóttir eru markahæstar í liði Víkings það sem af er deildarkeppninni með tvö mörk hvor. Sandra María Jessen er markahæst Þórs/KA-kvenna með sjö mörk, en hún hefur sem kunnugt er skorað öll mörk liðsins í mótinu til þessa.