Besta deildin: Þór/KA sækir Þrótt heim í dag

Þór/KA leikur í dag næstsíðasta leik sinn í Bestu deildinni, efri hlutanum, þegar stelpurnar fara í Laugardalinn og mæta liði Þróttar á AVIS-vellinum. Leikurinn hefst kl. 14.

Liðið getur með sigri í dag styrkt stöðu sína í 3. sæti deildarinnar þó sigur dugi ekki til að tryggja sætið endanlega. Þór/KA er fyrir leikinn í dag með 33 stig, eins og Víkingur, sem tapaði fyrir Val í gær. Þór/KA og Víkingur mætast á Greifavellinum í lokaumferðinni næsta laugardag. 

Þór/KA vann báða leikina gegn Þrótti í Bestu deildinni í sumar, fyrst 2-1 í Boganum í byrjun maí þar sem Sandra María Jessen skoarði bæði mörkin og svo 4-2 í deildinni í byrjun júlí. Þar hélt Sandra María áfram að gera Þrótturum lífið leitt því hún skoraði þrennu í leiknum. Karen María Sigurgeirsdóttir skoraði fjórða markið. Hulda Ósk Jónsdóttir átti stoðsendingu í öllum mörkunum í seinni leiknum.

Þróttur átti í nokkru basli í upphafi móts, en náði naumlega inn í efri hlutann á lokamínútu síðasta leiks fyrir tvískiptingu deildarinnar. Þróttarar hafa svo laumað sér upp að hlið FH og í 5. sætið með betri markamun en Hafnfirðingar. Þór/KA hefur haldið 3. sætinu þrátt fyrir misjafnt gengi.