Karfan er tóm.
Lokaumferð Bestu deildar kvenna fyrir tvískiptingu deildarinnar í efri og neðri hluta fer fram í dag og hefjast allir leikirnir á sama tíma, kl. 14. Þór/KA sækir lið Fylkis heim í Árbæinn.
Fyrri leik liðanna í sumar lauk með 3-1 sigri okkar liðs á VÍS-vellinum þar sem Hildur Anna Birgisdóttir, Hulda Bjög Hannesdóttir og Lara Ivanuša skoruðu mörkin. Þór/KA er í 3. sæti Bestu deildarinnar með 29 stig úr 17 leikjum, en Fylkir í 9. sæti með níu stig.
Leikurinn í dag verður 30. viðureign þessara liða í efstu deild. Þór/KA hefur unnið ríflega helming leikjanna, 15 af 29, sjö sinnum hafa þau gert jafntefli og sjö sinnum hafa Árbæingar sigrað.
Fyrsta viðureign þessara liða í efstu deild fór fram 2006, en efsta deild nefndist þá Landsbankadeildin. Sá leikur fór fram á Akureyrarvelli og endaði 0-4. Stærsti sigurinn kom seint í september 2016 þegar Þór/KA vann 6-0. Mikil rigning hafði þá verið á Akureyri og völlurinn blautur og erfiður. Til greina kom að færa hann inn og spila í Boganum, en niðurstaðan varð á endanum að spila á Þórsvellinum. Á meðal markaskorara í þeim leik voru tvær sem eru í leikmannahópi Þórs/KA í dag, Hulda Ósk Jónsdóttir og Sandra María Jessen. Margrét Árnadóttir kom inn sem varamaður, en Hulda Björg Hannesdóttir var ónotaður varamaður.
Við skoðum að venju, næstum af handahófi en þó ekki alveg, hvaða knattspyrnukonur hafa spilað fyrir bæði félögin. Þær eru reyndar ekki margar. Sem fyrr er sleginn sá varnagli að þessi listi er mögulega ekki tæmandi enda byggður á beinum félagaskiptum milli þessara félaga og að hluta á minni fréttaritara.