Besta deildin: Þór/KA sækir Breiðablik heim í dag

Þór/KA leikur sinn þriðja leik í efri hluta Bestu deildarinnar í dag þegar liðið mætir Breiðabliki á Kópavogsvelli. Leikurinn hefst kl. 14.

Leikurinn í dag er fimmti keppnisleikur þessara liða á árinu. Fyrst mættust liðin í undanúrslitum Lengjubikarsins í Boganum í lok mars og þar hafði Breiðablik betur, 3-6. Fyrri leikur liðanna í Bestu deildinni í sumar fór fram á VÍS-vellinum (Þórsvelli) í júní og endaði 0-3. Næst var komið að undanúrslitum í Mjólkurbikarkeppninni, sem einnig fór fram á Akureyri í júní, þar sem Breiðablik hafði betur í framlengdum leik 1-2. Seinni leikurinn í Bestu deildinni fór fram á Kópavogsvelli snemma í ágúst og lauk með 4-2 sigri Breiðabliks. Eins og sjá má á tölunum hefur mikið verið skorað í leikjum liðanna á árinu og spennandi að sjá hvað gerist í dag.

Breiðablik er í harðri baráttu við Val um Íslandsmeistaratitilinn og hefur þar eins stigs forystu þegar bæði lið eiga þrjá leiki eftir. Valur mætir FH á sama tíma og Þór/KA sækir Breiðablik heim. Þór/KA er í 3. sæti deildarinnar og stefnir á að vera þar áfram. Þór/KA og Víkingur eru nú jöfn með 33 stig, en Þór/KA með 12 mörk í plús á meðan Víkingur er með tvö í mínus. 

Leikir sem Þór/KA á eftir:

Sunnudagur 22. september kl. 14 á Kópavogsvelli
Breiðablik - Þór/KA

Sunnudagur 29. september kl. 14 á AVIS-vellinum í Laugardal
Þróttur - Þór/KA

Laugardagur 5. október kl. 14 á Greifavellinum á Akureyri
Þór/KA - Víkingur