Besta deildin: Þór/KA mætir Þrótti á útivelli í dag

Leikjatörnin heldur áfram og komið að útileik í 12. umferð Bestu deildarinnar. Þór/KA sækir Þrótt heim í Laugardalinn í dag og hefst leikur liðanna kl. 16.

Leikurinn í dag er sá síðasti fyrir stutt landsleikjahlé á deildinni, en Ísland leikur heima gegn Þýskalandi föstudaginn 12. júlí og úti gegn Póllandi þriðjudaginn 16. júlí.  

Bæði liðin töpuðu leikjum sínum í síðustu umferð 0-1, Þróttur á útivelli gegn Val og Þór/KA á heimavelli gegn FH. Þór/KA er í 3. sæti deildarinnar með 21 stig úr 11 leikjum, sjö sigra og fjögur töp, en Þróttur er í 8. sæti með tíu stig úr 11 leikjum, þrjá sigra, eitt jafntefli og sjö töp.

Þór/KA vann fyrri leik liðanna á þessu tímabili, 2-1, í Boganum 2. maí. Þróttur vann báðar viðureignirnar í deildarkeppninni í fyrra, 2-1 á sínum heimavelli og 4-0 á Akureyri, en Þór/KA vann leik liðanna á útivelli í lokakafla mótsins, efri hlutanum, 2-0.

Leikurinn í dag er 16. viðureign þessara félaga í efstu deild Íslandsmótsins. Þór/KA hefur vinninginn, með níu sigra á móti fimm. 

 

Lausleg athugun á því hvaða leikmenn hafa spilað fyrir bæði félögin gefur okkur þrjú nöfn, en eins og áður er hér annars vegar farið eftir beinum félagaskiptum á milli félaganna og hins vegar eftir minni. Þær sem við fundum voru allar fyrst leikmenn með Þór/KA og Þór/KA/KS og skiptu þaðan í Þrótt, en engin úr Þrótti sem fór norður.

  • Björk Nóadóttir - 15 leikir með Þór/KA/KS og Þór/KA á árunum 2002-2006, fjórir leikir með Þrótti 2007. Það vill líka svo skemmtilega til að Björk hefur tekið að sér að nudda leikmenn á reglulega núna á þessu ári þannig að hún er komin aftur í hópinn, ef svo má segja. 
  • Áslaug Baldvinsdóttir - 89 leikir með Þór/KA/KS og Þór/KA á árunum 2001-2006 og 17 leikir með Þrótti 2007-2009.
  • Freydís Anna Jónsdóttir - 34 leikir með Þór/KA/KS og Þór/KA á árunum 2004-2007, tíu leikir með Þrótti 2009 og 2012-13, og síðan aftur með Þór/KA árið 2014, 14 leiki.