Besta deildin: Þór/KA fer til Keflavíkur í dag

Þór/KA sækir Keflvíkinga heim í 14. umferð Bestu deildarinnar í kvöld. Leikurinn fer fram á HS orku vellinum í Keflavík og hefst kl. 18.

Bæði lið töpuðu í 13. umferðinni, Þór/KA á heimavelli fyrir Víkingi og Keflavík á útivelli fyrir Val. Þór/KA er sem fyrr í 3. sæti deildarinnar með 24 stig, en Keflavík seig niður í botnsætið í síðustu umferð, er með níu stig eins og Fylkir.

Þessi lið mættust í Boganum í maí í fyrri umferð deildarinnar og þar vann Þór/KA, 4-0, þar sem Sandra María Jessen, Ísfold Marý Sigtryggsdóttir, Margrét Árnadóttir og Karen María Sigurgeirsdóttir skoruðu eitt mark hver. Keflvíkingar unnu fyrri leik liðanna í Bestu deildinni í fyrra, 2-1, á Akureyri, en Þór/KA vann 1-0 sigur í Keflavík.

Stórir sigrar 2007 og 2009

Alls eru viðureignir þessara liða orðnar 17 í efstu deild Íslandsmótsins. Þór/KA er með 11 sigra gegn fimm, en einu sinni hafa liðin skilið jöfn. Stærstu sigrarnir í þessum viðureignum komu með tveggja ára millibili og með 16 marka sveiflu. Keflavík vann 7-0 á heimavelli 2007, en tveimur árum seinna vann Þór/KA 9-0 sigur í Keflavík. Mateja Zver skoraði fimm mörk í sigrinum 2009 (fyrstu fimm) og Rakel Hönnudóttir fjögur þar á eftir. Mateja kláraði þrennuna á um það bil tíu mínútum og Rakel á tólf mínútum. Vesna Smiljkovic var í sigurliði Keflavíkur 2007 og í sigurliði Þórs/KA 2009 í þessum leikjum.

 

Í fljótu bragði fundust þrjár knattspyrnukonur sem eiga meistaraflokksleiki með báðum félögum, en hér verður ekki fullyrt hvort það gætu verið fleiri. Þessi samantekt er að hluta byggð á minni fréttaritara. Vanti einhverjar á þennan lista eru þær beðnar afsökunar hér með. Einhverjar eiga svo einnig leiki með Keflavík og ÍBA, forvera Þórs/KA í lok 20. aldarinnar.

  • Helena Rós Þórólfsdóttir er uppalin í Keflavík, en spilaði fyrir Þór/KA 2012-2014 og hluta sumars fyrir Völsung 2013 á lánssamningi frá Þór/KA.
  • Danka Podovac var í röðum Keflvíkinga 2006-2008 og síðar hjá Þór/KA 2010, eftir eitt ár hjá Fylki í millitíðinni.
  • Vesna Elísa Smiljkovic spilaði fyrir Keflavík 2005-2008 og svo Þór/KA 2009-2010.