Þór/KA mætti Íslandsmeisturum Vals í opnunarleik Bestu deildarinnar í gær.
Tvö mörk með stuttu millibili um miðbik fyrri hálfleiks gerðu Þór/KA erfitt fyrir gegn sterku liði Vals. Fram að mörkunum hafði Þór/KA fengið ágæt færi til að taka forystuna í leiknum, en náðu ekki að nýta þau tækifæri. Tækifærin urðu reyndar fleiri, í báðum hálfleikjum, en vantaði lokahnykkinn. Valur bætti svo við þriðja markinu í seinni hálfleik áður en Sandra María Jessen skoraði eina mark Þórs/KA undir lok leiks.
Valur - Þór/KA 3-1 (2-0)
Molar og tölur
Hér á heimasíðunni verður ekki fjallað ítarlega um leiki liðsins í Bestu deildinni, aðeins örstutt um gang leiksins, mörk og stoðsendingar. Við látum aðra fjölmiðla um að skrifa um okkur. En fróðleiksmolar og tölfræði koma í staðinn. Hér eru nokkrir molar frá gærdeginum.
- 1 - Hildur Anna Birgisdóttir spilaði sínar fyrstu mínútur í Bestu deildinni í gær, en hún kom inn á þegar 16 mínútur voru til leiksloka. Hildur á einnig að baki fjóra leiki í Lengjubikar og óskráða leiki í Kjarnafæðimótinu.
- 1 - Lidija Kuliš spilaði sinn fyrsta leik í Bestu deildinni, en hún var í byrjunarliðinu og spilaði 74 mínútur. Hún kom til félagsins í mars og kom við sögu í fjórum leikjum í Lengjubikarnum.
- 2 - Bríet Fjóla Bjarnadóttir kom inn á sem varamaður í sínum öðrum leik fyrir fermingu í Bestu deildinni í gær. Fyrsti leikurinn hennar var gegn Breiðabliki í fyrrasumar og svo annar leikurinn gegn Val í gær.
- 10 - Hulda Ósk Jónsdóttir hóf í gær sitt 10. tímabil í efstu deild, en hún spilaði með KR í Pepsi-deildinni 2015 og síðan með Þór/KA frá 2016 í Pepsi-deildinni, Pepsi Max-deildinni og Bestu deildinni. Þetta er hins vegar hennar 13. tímabil í meistaraflokki því áður hafði hún spilað með Völsungi 2012 og 2013 og KR 2014 í næstefstu deild.
- 90 - Sandra María Jessen skoraði sitt 90. mark í efstu deild á Íslandi þegar hún minnkaði muninn í 3-1 undir lok leiks.
- 99 - Karen María Sigurgeirsdóttir spilaði sinn 99. leik í efstu deild, en þar af eru 82 með Þór/KA. Hún nær því væntanlega 100. leiknum í efstu deild gegn FH um næstu helgi.
- 150 - Margrét Árnadóttir spilaði sinn 150. leik í mótum á vegum KSÍ, en hún á að auku fjóra Evrópuleiki að baki. Þetta var 101. leikur Margrétar í efstu deild, sá 100. var lokaleikur deildarinnar í fyrra.