Karfan er tóm.
Breyttur leiktími: 18:15. Þór/KA tekur á móti Val í 10. umferð Bestu deildarinnar á VÍS-vellinum (Þórsvellinum) í kvöld kl. 18:15.
Þessi lið eru í 2. og 3. sæti Bestu deildarinnar eftir fyrsta hluta mótsins. Þór/KA er með 21 stig í 3. sætinu, en Valur í 2. sætinu með 24 stig eins og Breiðablik. Stigin þrjú sem eru í boði eru því dýrmæt (eins og alltaf) fyrir bæði liðin til að halda áfram og halda góðri stöðu í toppbarátunni. Á sama tíma fara Blikar til Keflavíkur.
Þór/KA og Valur mættust á N1 vellinum að Hlíðarenda í fyrstu umferð mótsins. Valur hafði þar betur, 3-1. Sandra María Jessen skoraði mark Þórs/KA í þeim leik. Valur hafði einnig betur í öllum þremur viðureignum liðsins í Bestu deildinni í fyrra, 1-0 á Origo-vellinum að Hlíðarenda, 2-3 á VÍS-vellinum í seinni umferðinni og 6-0 á Origo-vellinum í efri hlutanum í lok móts. Karen María Sigurgeirsdóttir og Bríet Jóhannsdóttir skoruðu mörkin tvö í tapinu á VÍS-vellinum.
Það er því sannarlega kominn tími til að ná sigri gegn Val og þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi þess að fá fólk á völlinn og fá öflugan stuðning úr stúkunni. Mikilvægi stuðningsins hefur margsýnt sig. Upphitun fyrir leikinn verður hefðbuntinn, grillið funheitt og borgararnir ljúffengir beint af grillinu, Jói í sófanum eða Peddi á pallinum kl. 17:30, fótboltaspilin til sölu í sjoppunni og bara eitt að gera, fylla stúkuna og styðja stelpurnar til sigurs!
Þær eru orðnar nokkrar, knattspyrnukonurnar sem hafa spilað með báðum félögum, eins og áður verður ekki fullyrt hér að okkar listi sé tæmandi. Hann er að hluta unninn upp úr beinum félagaskiptum milli þessara félaga og að hluta eftir minni.
Þrjár í leikmannahópi Vals koma frá Akureyri og hófu meistaraflokksferilinn með Þór/KA, Arna Sif Ásgrímsdóttir, Lillý Rut Hlynsdóttir og Anna Rakel Pétursdóttir, en Arna Sif er frá keppni vegna meiðsla. Þá er Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir í leikmannahópi Vals, en hún spilaði með Þór/KA 2019. Bryndís Eiríksdóttir er samningsbundin Val, en leikur með Þór/KA í sumar á lánssamningi. Arna Eiríksdóttir, systir Bryndísar, spilaði með Þór/KA 2022, einnig á lánssamningi frá Val. Fleiri hafa komið við sögu hjá báðum félögum, þeirra á meðal Ásta Árnadóttir, Bryndís Lára Hrafnkelsdóttir, Gígja Valgerður Harðardóttir, Lára Kristín Pedersen og Sandra Sigurðardóttir.
Leikurinn í kvöld verður 41. viðureign þessara félaga í efstu deild Íslandsmótsins. Valur hefur yfirhöndina í innbyrðis viðureignum. Af sjö sigurleikjum hefur Þór/KA fimm sinnum unnið á heimavelli, en tvisvar á útivelli. Heimasigrarnir komu 2022, 2018, 2017, 2016 og 2015.
Minnum á upphitun, borgarar beint af grillinu og þjálfaraspjall kl. 17:15.
Minnum á fótboltaspjöld Bestu deildarinnar - til sölu í sjoppunni á heimaleikjum