Besta deildin: Slæm útreið í Kópavoginum

Þór/KA fékk slæma útreið þegar liðið heimsótti Breiðablik á Kópavogsvöll í dag í 3. umferð efri hluta Bestu deildarinnar.

Slakur fyrri hálfleikur gerði útslagið og gestgjafarnir með sex marka forystu í leikhléi. Okkar lið kom af meiri krafti í seinni hálfleikinn og Sandra María Jessen skoraði eina mark hálfleiksins og eina mark okkar á 55. mínútu, hennar 22. mark í deildinni í sumar. Eftir slakan fyrri hálfleik vann Þór/KA seinni hálfleikinn, sem segja má að hafi verið ágætis svar við slakri frammistöðu fyrstu 45 mínúturnar. 

Þór/KA er áfram í 3. sæti deildarinnar þegar þrjár umferðir eru eftir, með 33 stig eins og Víkingar, en betri markamun.

Hér að neðan eru svo að venju krækjur á umfjöllun, leiklýsingu og viðtöl í þeim fjölmiðlum sem fjalla um Bestu deild kvenna. Rétt er að taka fram að þó hér sé tengt við umfjöllun fjölmiðla er ekki þar með sagt að öll hlutaðeigandi séu sammála öllu því sem þar er ritað. Leiklýsingar, mat á því hver á góðan dag og hver ekki, mat á frammistöðu dómara og fleira slíkt er auðvitað aðeins skoðun viðkomandi fjölmiðlamanns þó tengt sé við hana í umfjöllun hér.

Breiðablik - Þór/KA 6-1 (6-0)

Molar og fróðleikur

  • 10 - Hulda Ósk Jónsdóttir átti stoðsendinguna í eina marki liðsins í dag sem Sandra María skoraði. Þetta var 10. stoðsending Huldu Óskar í Bestu deildinni. Vera má að fréttaritari Þórs/KA fari ekki eftir ströngustu reglum við talningu á stoðsendingum, en forvitnilegt að sjá í lok móts hverjar verða á toppi deildarinnar í þessum flokki og hver fjöldinn verður hjá Huldu Ósk.
  • 10 - Kolfinna Eik Elínardóttir spilaði sinn 10. leik í meistaraflokki. Þar af eru sex í Bestu deildinni. 
  • 20 - Bríet Fjóla Bjarnadóttir spilaði sinn 20. leik í meistaraflokki. Þar af eru 14 í Bestu deildinni.
  • 30 - Margrét Árnadóttir og Sandra María Jessen voru báðar að spila sinn 30. leik fyrir Þór/KA á árinu og þær einu sem hafa komið við sögu í öllum leikjum liðsins í Lengjubikar (6), Mjólkurbikar (3) og Bestu deildinni (21). Eru þá ótaldir leikir í Kjarnafæðimótinu í janúar ásamt æfingaleikjum. Þær tvær eru þær einu sem hafa tekið þátt í öllum leikjum liðsins í þessum þremur KSÍ-mótum, en Hulda Ósk Jónsdóttir kemur næst með 29 leiki.
  • 2.729 - Áður en Margrét Árnadóttir kom af velli á 89. mínútu leiksins hafði hún spilað allar mínútur í öllum leikjum liðsins í öllum þremur mótunum á vegum KSÍ á árinu, Lengjubikarnum, Mjólkurbikarnum og Bestu deildinni. Það eru samtals 2.729 mínútur, þar af 540 í sex leikjum í Lengjubikarnum, 300 í þremur leikjum í Mjólkurbikarnum (ein framlenging meðtalin) og 1.889 mínútur í 21 leik í Bestu deildinni. Þá eru ótaldar mínútur sem bætt er við í hverjum leik, á að giska 3-5 að meðaltali í leik.

 

Stoðsendingadrottningin Hulda Ósk Jónsdóttir - 10 stoðsendingar. Í eitt skipti átti hún fjórar stoðsendingar í sama leiknum. Mynd: Ármann Hinrik Kolbeinsson.

Kolfinna Eik Elínardóttir 10 leikir í meistaraflokki. Mynd: Þórir Ó. Tryggvason.

Bríet Fjóla Bjarnadóttir 20 leikir í meistaraflokki. Mynd: Þórir Ó. Tryggvason.

Margrét Árnadóttir - 30 leikir í þremur mótum með Þór/KA á árinu, allar mínútur í öllum leikjum þar til í dag þegar hún kom út af á 89. mínútu. Samtals 2.729 mínútur auk viðbótartíma. Mynd: Ármann Hinrik Kolbeinsson.

Sandra María Jessen 30 leikir í þremur mótum, eins og Margrét, en ekki allar mínútur.