Besta deildin: Sandra María valin besti leikmaðurinn

Sandra María Jessen í leik á móti Val í efri hluta Bestu deildarinnar. Mynd: Ármann Hinrik Kolbeinss…
Sandra María Jessen í leik á móti Val í efri hluta Bestu deildarinnar. Mynd: Ármann Hinrik Kolbeinsson.

Sandra María Jessen var valin besti leikmaður Bestu deildarinnar þetta árið, en það eru leikmenn liðanna í deildinni sem velja. Sandra María fékk verðlaunin, Flugleiðahornið svokallaða, afhent núna fyrir nokkrum mínútum, fyrir leik Þórs/KA og Víkings sem hófst kl. 14. 

Það kemur engum á óvart að Sandra María fái þessi verðlaun því hún hefur verið mjög afgerandi fyrir liðið okkar í sumar, ekki aðeins í því að skora mörk. Auk þess að vera hörkutól og mikill markaskorari inni á vellinum er hún fyrirmynd ungra stúlkna innan sem utan vallar, leggur mikla áherslu á alla þætti sem skipta máli til að vera í góðu formi og ná árangri sem leikmaður og liðsmaður.

Sandra María er langmarkahæst í Bestu deildinni, hefur skorað 22 mörk í 22 leikjum áður en kom að leiknum í dag. Sú sem kemur næst henni er með tíu mörkum færra en hún. Fyrir lokaumferðina í efri hlutanum er Jordyn Rhodes úr Tindastóli næstmarkahæst með 12 mörk, en hún hefur lokið leik með sínu liði í neðri hluta deildarinnar. Næstar koma tvær úr Breiðabliki, Vigdís Lilja Kristjánsdóttir og Andrea Rut Bjarnadóttir, báðar með 11 mörk, og þyrfti önnur hvor þeirra að skora 11 mörk til að jafna við Söndru Maríu. Það má því slá því föstu að gullskórinn verði hennar. 


Sandra María skorar eitt fjögurra marka Þórs/KA í 4-0 sigri á Keflvíkingum í Boganum. Mynd: Þórir Ó. Tryggvason.

Til fróðleiks má einnig geta þess að Sandra María skoraði níu mörk í sex leikjum í A-deild Lengjubikarsins og tvö mörk í þremur leikjum í Mjólkurbikarnum. Samanlagt í KSÍ-mótunum eru mörkin því orðin 33, ásamt tíu stoðsendingum. Að auki skoraði Sandra María sex mörk í sex leikjum í Kjarnafæðimótinu, ásamt því að eiga eina stoðsendingu. Eins og áður hefur komið fram hefur Sandra María skorað á móti öllum liðum í deildinni í sumar. Hún hefur komið við sögu og spilað nær allar mínútur í öllum leikjum liðsins í Bestu deildinni, Mjólkurbikarnum og Lengjubikarnum, alls 31 leik, og verið í byrjunarliðinu í 30 leikjum. 

  • Árið 2024 hjá Söndru Maríu - KSÍ-mótin og Kjarnafæðimótið: 37 leikir, 39 mörk, 11 stoðsendingar.

Þegar þessi frétt birtist er lokaumferðin rétt nýhafin með tveimur leikjum og annar þeirra er leikur Þórs/KA og Víkings á Greifavellinum. Óhætt er að fullyrða að Sandra María verði markadrottning Bestu deildarinnar og fái Gullskóinn frá Nike, jafnvel þótt Valur og Breiðablik eigi eftir að mætast, en leikur þeirra hefst kl. 16:15. 

Mörkin í Bestu deildinni

Mörkin í Bestu deildinni, efri hluta