Karfan er tóm.
Þór/KA sækir lið Tindastóls heim í Skagafjörðinn í dag í 15. umferð Bestu deildarinnar. Leikurinn hefst kl. 18.
Leikurinn í dag er sá síðasti fyrir tíu daga leikjahlé yfir verslunarmannahelgina og eftir þessa umferð aðeins þrjár umferðir eftir áður en kemur að tvískiptingu deildarinnar. Þór/KA er sem fyrr í 3. sæti deildarinnar, nú með 27 stig, sjö stigum meira en næsta lið. Tindastóll hefur 11 stig í 8. sæti deildarinnar.
Þór/KA og Tindastóll hafa mæst fimm sinnum í efstu deild Íslandsmótsins. Fjórum sinnum hefur Þór/KA sigrað og einu sinni hefur endað með jafntefli. Stutt er síðan Tindastóll komst fyrst upp í efstu deild og viðureignir þessara liða því allar frekar nýlegar, tvær sumarið 2021, tvær 2023 og svo fyrri leikur liðanna í sumar. Heimaleikjunum var svissað í vor vegna skemmda á Sauðárkróksvelli og fór fyrri leikur liðanna þetta árið fram í Boganum. Þór/KA vann öruggan sigur, 5-0. Agnes Birta Stefánsdóttir, Karen María Sigurgeirsdóttir, Iðunn Rán Gunnarsdóttir, Sandra María Jessen og Emelía Ósk Krüger skoruðu mörkin. Þór/KA vann einnig 5-0 í leik á Þórsvellinum í fyrra, en markalaust jafntefli varð í síðari leiknum í lokaumferð hefðbundnu deildarkeppninnar á Króknum.
Nokkrar knattspyrnukonur eiga að baki meistaraflokksleiki með báðum félögunum, þar af þrjár sem eru hjá þessum félögum í dag. Hér verður ekki fullyrt að þessi listi sé tæmandi enda aðeins birtur á beinum félagaskiptum milli félaganna og minni fréttaritara.
Rakel Sjöfn Stefánsdóttir (2000) spilaði fyrir Þór/KA 2016, 2017, 2020 og 2021 og Tindastóli hluta sumars 2022 og alveg 2023.
Sara Mjöll Jóhannsdóttir (1998) á að baki leiki með Þór/KA 2018, 2021 og 2022, ásamt fjórum leikjum í Lengjubikar með Tindastóli 2017.
Rakel Hinriksdóttir (1986) lék með Þór/KA/KS 2002-2005 og Þór/KA 2006-2011 og síðan með Tindastóli 2012 og 2013. Hún á samtals að baki 99 meistaraflokksleiki með Þór/KA (Þór/KA/KS).
Elva Friðjónsdóttir (1990) spilaði fyrir Tindastól 2004-2007 og Þór/KA 2008-2010.
Inga Birna Friðjónsdóttir (1987), systir Elvu hér að ofan, spilaði með Tindastóli 2001-2003 og Þór/KA/KS 2004.
Margrét Guðný Vigfúsdóttir (1987) á að baki leiki með Tindastóli 2002-2003 og Þór/KA/KS 2004.
Hrafnhildur Guðnadóttir (1985) spilaði fyrir Þór/KA/KS 2001-2002 og aftur 2004, og Tindastól 2003 og aftur 2007-2011.
Einarína Einarsdóttir (1967) spilaði fyrir Þór/KA á upphafsárum félagsins, 1999-2000 og síðan Tindastól 2002-2003.
Ágústa Jóna Heiðdal (1981) spilaði sömuleiðis fyrir Þór/KA fyrstu tvö árin sem spilað var undir því nafni, 1999-2000, en síðan fyrir Tindastól 2001.