Besta deildin: Rændar!

Jafntefli varð niðurstaða í leik Þórs/KA og Tindastóls í 15. umferð Bestu deildarinnar í gær. Karen María Sigurgeirsdóttir skoraði tvö mörk og er næstmarkahæst í liðinu á eftir Söndru Maríu Jessen sem skoraði sitt 16. mark í gær.

Stundum er sagt að best sé að sofa á einhverju og fara svo yfir málin aftur á nýjum degi. En stundum er sama hve lengi þú sefur, ranglæti breytist ekki í réttlæti. Fleiri orð verða ekki höfð um gang leiks Þórs/KA og Tindastóls sem fram fór á Sauðárkróksvelli í gær. Í lok fréttarinnar er varpað fram nokkrum spurningum sem vert er að ræða og reyna að svara.

Tindastóll - Þór/KA 3-3 (1-2)

Þór/KA er með 28 stig að loknum 15 umferðum og áfram í 3. sætinu. Næsti leikur liðsins verður laugardaginn 10. ágúst gegn Breiðabliki á Kópavogsvelli.

Molar og fróðleikur

  • 2 - Heimasíða félagsins gefur dómurum ekki einkunn, en það gera lýsendur fjölmiðlanna. Þar virtist fólk á einu máli um frammistöðuna, tveir í einkunn.
  • 5 - Hulda Ósk Jónsdóttir spilaði sinn 150. leik fyrir Þór/KA í efstu deild þegar hún skoraði stórkostlegt mark og tryggði liðinu sigur gegn Keflavík í Keflavík og spilaði því sinn 151. leik fyrir félagið í efstu deild á Sauðárkróki í gær. Hún á reyndar að baki 167 leiki í efstu deild því 16 leiki í Pepsi-deildinni fyrir KR 2015. Fram kom á mbl.is eftir leikinn í Keflavík að hún hefði þar orðið sú fimmta sem nær 150 leikjum í efstu deild fyrir Þór/KA. Hinar fjórar eru Arna Sif Ásgrímsdóttir (197), Sandra María Jessen (168, leikurinn í gær meðtalinn), Lára Einarsdóttir (156) og Karen Nóadóttir (151). Hulda Ósk jafnaði því við Karen í gær og stutt í að hún nái Láru einnig. Þess má svo reyndar til gamans geta að Lára hefur náð nokkrum leikjum með Þór/KA í efstu deild sem sjúkraþjálfari.
  • 30 - Amalía Árnadóttir spilaði sinn 30. leik í efstu deild þegar hún kom inn á undir lok leiks í gær.
  • 80 - Bryndís Eiríksdóttir spilaði sinn 80. meistaraflokksleik. Þar af eru 15 fyrir Þór/KA.
  • 90 - Ísfold Marý Sigtryggsdóttir kom inn á sem varamaður á 70. mínútu í gær eftir að hafa misst úr leiki undanfarnar tíu vikur vegna meiðsla. Þetta var hennar 90. leikur í meistaraflokki. Þar af eru 83 fyrir Þór/KA og sjö fyrir Hamrana sumarið 2020.
  • 100 - Harpa Jóhannsdóttir lék sinn 100. leik fyrir Þór/KA. Hún er samtals komin með 123 meistaraflokksleiki í mótum á vegum KSÍ, en 23 eru fyrir Hamrana í Inkasso-deildinni, bikarkeppni og Lengjubikar 2018. Leikirnir 100 skiptast þannig: 62 í A-deild, tveir í bikarkeppni, 36 í Lengjubikar og einn í Meistarakeppni KSÍ.
  • 201 - Hulda Björg Hannesdóttir og Sandra María Jessen hafa báðar náð 200 leikja áfanga fyrir Þór/KA í mótum á vegum KSÍ. Báðar spiluðu 201. leikinn sinn gegn Tindastóli á Sauðárkróksvelli, Hulda Björg í gær og Sandra María í lok ágúst í fyrra. Báðir leikirnir enduðu með jafntefli. 


Sú fimmta til að ná 150 leikjum í efstu deild fyrir Þór/KA - Hulda Ósk Jónsdóttir.

30 leikir í meistaraflokki - Amalía Árnadóttir.


80 leikir í meistaraflokki - Bryndís Eiríksdóttir.


90 
leikir í meistaraflokki - Ísfold Marý Sigtryggsdóttir.


100 leikir fyrir Þór/KA - Harpa Jóhannsdóttir.

Spurt en ekki svarað

  • Er kominn tími til að sýna Bestu deild kvenna sömu virðingu og viðurkenna sama mikilvægi dómgæslu í leikjum þeirra og í Bestu deild karla, óháð því hvað sagt er um erfiðleikastig þess að dæma í mismunandi deildum? 
  • Er það fyrir neðan virðingu einhverra sem dæma í Bestu deild karla að dæma í Bestu deild kvenna?
  • Er eðlilegt að ekki sé eftirlitsmaður frá KSÍ á leik í Bestu deild kvenna?
  • Fá háværir þjálfarar sem hamast stöðugt í dómurum og biðja um dóma sér í hag betri þjónustu en þeir sem eru hljóðlátari og einbeita sér að sínu liði? Ef svo er, er það þá í samræmi við átakið sem leggur áherslu á mikilvægi dómara, mikilvægi virðingar og það að enginn leikur fer fram án dómara?
  • Gerir skortur á dómurum það að verkum að gera þarf minni kröfur til hæfni en ákjósanlegt væri við val á nýju fólki inn í stéttina og við mat á frammistöðu og úthlutun verkefna fyrir þau sem eru nú þegar við störf innan stéttarinnar?