Besta deildin: Loks heimasigur í viðureign Þórs/KA og FH

Brosmildur bekkur. Hildur Anna Birgisdóttir, Kolfinna Eik Elínardóttir, Angela Mary Helgadóttir, Eme…
Brosmildur bekkur. Hildur Anna Birgisdóttir, Kolfinna Eik Elínardóttir, Angela Mary Helgadóttir, Emelía Ósk Krüger, Bríet Jóhannsdóttir og Amalía Árnadóttir. Mynd: Þórir Ó. Tryggvason.

Þór/KA styrkti stöðu sína í 3. sæti Bestu deildarinnar, með sigri á FH í fyrsta leik í efri hlutanum í dag. Sandra María Jessen skoraði eina mark leiksins.

Bæði lið fengu ágætis færi til að skora, en markalaust var eftir fyrri hálfleikinn. Gestirnir náðu reyndar að koma boltanum í netið hjá Þór/KA þegar Snædís María Jörundsdóttir skoraði eftir hornspyrnu, en markið var dæmt af.

Á fjórðu mínútu seinni hálfleiksins fékk Lara Ivanuša boltann eftir slæma sendingu úr vörn FH, kom honum inn á teiginn til vinstri á Söndru Maríu sem skoraði af öryggi. Markverðir beggja liða áttu svo þátt í því að þegar upp var staðið reyndist þetta eina mark leiksins. 

Þór/KA fór þar með í 33 stig, en Víkingar eru í 4. sætinu með 29 stig. Næsti leikur liðsins er heimaleikur gegn Val föstudaginn 13. september. 

Þór/KA - FH 1-0 (0-0)

 

Molar og fróðleikur

  • - Leikurinn í dag var fimmta viðureign Þórs/KA og FH á árinu og sú fyrsta sem endaði með heimasigri. 
  • 7 - Sandra María Jessen verður líklega ekki gerð að heiðursborgara í Hafnarfirði á þessu ári. Markið sem hún skoraði í dag var það sjöunda sem hún skorar hjá FH á árinu. Fyrst skoraði hún annað markið í 2-1 sigri á FH í Skessunni í Lengjubikarnum, síðan gerði hún öll fjögur mörkin í 4-0 sigri á BIRTU-vellinum í Bestu deildinni í lok apríl, síðan sigurmarkið í 1-0 sigri á FH á Kaplakrikavelli í átta liða úrslitum Mjólkurbikarsins og svo eina mark leiksins í 1-0 sigri á Greifavellinum í dag. Sjö mörk í fjórum sigrum á fjórum völlum. Það er líka ágætis tölfræði að vera búin að skora 32 mörk í 28 leikjum, það er samanlagt í Bestu deildinni, Mjólkurbikarnum og Lengjubikarnum. 
  • 20 - Lara Ivanuša spilaði sinn 20. leik fyrir Þór/KA. Þar af eru 14 í Bestu deildinni, tveir í Mjólkurbikar og fjórir í Lengjubikar.
  • 21 - Það er ekki annað hægt en að telja með í hvert skipti sem Sandra María skorar. Hún skoraði eina mark leiksins og er þar með komin í 21 mark. 
  • 190 - Karen María Sigurgeirsdóttir spilaði sinn 190. leik í meistaraflokki. Þar af eru 114 í efstu deild með Þór/KA og Breiðabliki.

20 - Lara Ivanuša spilaði í dag sinn 20. leik fyrir Þór/KA.

190 Karen María Sigurgeirsdóttir spilaði sinn 190. leik í meistaraflokki, samanlagt í mótum á vegum KSÍ og í Evrópukeppnum.