Brosmildur bekkur. Hildur Anna Birgisdóttir, Kolfinna Eik Elínardóttir, Angela Mary Helgadóttir, Emelía Ósk Krüger, Bríet Jóhannsdóttir og Amalía Árnadóttir. Mynd: Þórir Ó. Tryggvason.
Þór/KA styrkti stöðu sína í 3. sæti Bestu deildarinnar, með sigri á FH í fyrsta leik í efri hlutanum í dag. Sandra María Jessen skoraði eina mark leiksins.
Bæði lið fengu ágætis færi til að skora, en markalaust var eftir fyrri hálfleikinn. Gestirnir náðu reyndar að koma boltanum í netið hjá Þór/KA þegar Snædís María Jörundsdóttir skoraði eftir hornspyrnu, en markið var dæmt af.
Á fjórðu mínútu seinni hálfleiksins fékk Lara Ivanuša boltann eftir slæma sendingu úr vörn FH, kom honum inn á teiginn til vinstri á Söndru Maríu sem skoraði af öryggi. Markverðir beggja liða áttu svo þátt í því að þegar upp var staðið reyndist þetta eina mark leiksins.
Þór/KA fór þar með í 33 stig, en Víkingar eru í 4. sætinu með 29 stig. Næsti leikur liðsins er heimaleikur gegn Val föstudaginn 13. september.
Þór/KA - FH 1-0 (0-0)
Molar og fróðleikur
- 5 - Leikurinn í dag var fimmta viðureign Þórs/KA og FH á árinu og sú fyrsta sem endaði með heimasigri.
- 7 - Sandra María Jessen verður líklega ekki gerð að heiðursborgara í Hafnarfirði á þessu ári. Markið sem hún skoraði í dag var það sjöunda sem hún skorar hjá FH á árinu. Fyrst skoraði hún annað markið í 2-1 sigri á FH í Skessunni í Lengjubikarnum, síðan gerði hún öll fjögur mörkin í 4-0 sigri á BIRTU-vellinum í Bestu deildinni í lok apríl, síðan sigurmarkið í 1-0 sigri á FH á Kaplakrikavelli í átta liða úrslitum Mjólkurbikarsins og svo eina mark leiksins í 1-0 sigri á Greifavellinum í dag. Sjö mörk í fjórum sigrum á fjórum völlum. Það er líka ágætis tölfræði að vera búin að skora 32 mörk í 28 leikjum, það er samanlagt í Bestu deildinni, Mjólkurbikarnum og Lengjubikarnum.
- 20 - Lara Ivanuša spilaði sinn 20. leik fyrir Þór/KA. Þar af eru 14 í Bestu deildinni, tveir í Mjólkurbikar og fjórir í Lengjubikar.
- 21 - Það er ekki annað hægt en að telja með í hvert skipti sem Sandra María skorar. Hún skoraði eina mark leiksins og er þar með komin í 21 mark.
- 190 - Karen María Sigurgeirsdóttir spilaði sinn 190. leik í meistaraflokki. Þar af eru 114 í efstu deild með Þór/KA og Breiðabliki.
20 - Lara Ivanuša spilaði í dag sinn 20. leik fyrir Þór/KA.
190 - Karen María Sigurgeirsdóttir spilaði sinn 190. leik í meistaraflokki, samanlagt í mótum á vegum KSÍ og í Evrópukeppnum.