Besta deildin: Jöfnuðu tvisvar, en það dugði ekki til

Þór/KA er áfram í 3. sæti Bestu deildarinnar með 28 stig þrátt fyrir 4-2 tap fyrir Breiðabliki á Kópavogsvelli í gær.

Þór/KA lendi undir í fyrri hálfleik, en Lara Ivanuša jafnaði í viðbótartíma eftir sendingu frá Huldu Ósk Jónsdóttur. Aftur tók Breiðablik forystuna, en skömmu síðar jafnaði Sandra María Jessen leikinn í 2-2, Lara með stoðsendinguna. Þetta dugði þó ekki til því Breiðablik bætti við tveimur mörkum á lokakafla leiksins. Leikurinn var fjörugur og skemmtilegur og fengu bæði lið færi til að skora fleiri mörk, en boltinn fór til dæmis í stöngina hjá Þór/KA, í þverslána hjá Breiðabliki og að auki varði Harpa Jóhannsdóttir nokkrum sinnum mjög vel í markinu.

Nánar má lesa um leikinn í hinum ýmsu fjölmiðlum sem vísað er í hér að neðan.

Þegar 16 umferðum af 18 er lokið í deildarkeppninni fyrir tvískiptingu í efri og neðri hluta er Þór/KA með 28 stig, en lið Víkings hefur dregið nokkuð á Þór/KA í stigasöfnun að undanförnu og eru nú með 26 stig í 4. sætinu. Nú þegar hafa fjögur efstu liðin, Valur, Breiðablik, Þór/KA og Víkingur, tryggt sér sæti í efri hlutanum en FH, Þróttur og Stjarnan berjast um tvö sæti til viðbótar. Þrjú efstu liðin fá þrjá heimaleiki í lokahluta mótsins, en liðin í 4.-6. sæti fá tvo heimaleiki.

Næsti leikur liðsins er heimaleikur gegn Stjörnunni fimmtudaginn 15. ágúst.

Breiðablik - Þór/KA 4-2 (1-1)

 

Molar og fróðleikur

  • 7 - er fjöldi stoðsendinga sem Hulda Ósk Jónsdóttir hefur átt í leikjum liðsins í Bestu deildinni, fleiri en aðrar í liðinu. Fjórar af þessum stoðsendingum komu reyndar í sama leiknum. Næst á eftir henni er Karen María Sigurgeirsdóttir með fimm stoðsendingar.
  • 16,5 - er svona um það bil meðalaldur útileikmanna sem voru varamenn hjá Þór/KA í gær, reiknað gróflega út frá því hvaða aldri þær ná á þessu ári. Tvær fæddar 2006, tvær 2007, ein 2009 og ein 2010. 
  • 20 Angela Mary Helgadóttir spilaði sinn 20. leik í efstu deild.
  • 40 - Bríet Jóhannsdóttir spilaði sinn 40. leik í meistaraflokki í mótum á vegum KSÍ.