Besta deildin: Jafntefli í Árbænum

Frá leik liðanna á Akureyri í byrjun júní. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson.
Frá leik liðanna á Akureyri í byrjun júní. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson.

Þór/KA og Fylkir gerðu jafntefli í 18. umferð Bestu deildarinnar síðastliðinn sunnudag. Þór/KA endaði í 3. sæti fyrir tvískiptingu og fær því þrjá heimaleiki á lokasprettinum.

Umfjöllun um leikinn var á helstu miðlum samdægurs og daginn eftir leik og látum við það nægja að sinni með tenglum á fréttir og viðtöl hér að neðan. Vegna annríkis seinkaði aðeins að birta þennan pistil.

Ef til vill bar þó helst til tíðinda, sem eru svosem engin tíðindi lengur, að Sandra María Jessen skoraði bæði mörk Þórs/KA og endaði þar með í 20 mörkum í 18 leikjum í hefðbundnu deildarkeppninni, sem er meira en hún hefur áður skorað á einu tímabili. Með því að skora á móti Fylki náði Sandra María þar með því skemmtilega afreki að skora hjá öllum liðunum í deildinni í sumar.

Þór/KA endaði í 3. sæti deildarinnar með 30 stig og fær því þrjá heimaleiki á lokasrpettinum og tvo útileiki. Heimaleikirnir verða gegn FH, Val og Víkingi en útileikirnir gegn Breiðabliki og Þrótti. Ákveðið hefur verið að spila þessa þrjá heimaleiki á Greifavellinum. Leikjadagskráin hefur verið staðfest og má sjá hana hér á vef KSÍ.

Fyrsti leikurinn í Bestu-efri-deildinni verður gegn FH laugardaginn 31. ágúst og hefst leikurinn kl. 14.

Fylkir - Þór/KA 2-2 (2-1)

 

Molar og fróðleikur

  • 2,22 - Þór/KA skoraði 40 mörk í 18 leikjum, eða að meðaltali 2,22 mörk í leik. Liðið fékk á sig 28 mörk í 18 leikjum, eða 1,56 mörk í leik. Aðeins þrjú lið skoruðu 40 mörk eða meira, en ásamt Þór/KA voru það toppliðin tvö, Valur (48) og Breiðablik (46).
  • 3 - Þór/KA situr í 3. sætinu eftir 18 umferða deildarkeppnina og er það besti árangur liðsins frá 2018, en það ár vann liðið Lengjubikarinn og Meistarakeppni KSÍ og endaði í 2. sæti deildarinnar með 41 stig. Þá voru einungis spilaðar 18 umferðir og ekki framhald í tvískiptri deild eins og núna og í fyrra. 
  • - Öll níu liðin í deildinni urðu fyrir því að fá á sig mark frá Söndru Maríu Jessen. Fyrir leikinn gegn Fylki var Árbæjarliðið það eina sem hún hafði ekki skorað hjá í deildinni í sumar.
  • 20 - með fyrra marki sínu í dag var Sandra María Jessen komin í 19 mörk í Bestu deildinni í sumar og þar með búin að bæta sinn besta árangur, flest mörk skoruð í deildinni á einni leiktíð. Hún hafði áður mest skorað 18 mörk þegar Þór/KA varð Íslandsmeistari 2012. Seinna mark Söndru var hennar 20. mark í deildinni í sumar og er hún enn langefst á lista yfir markaskorun því næstu tvær eru báðar með tíu mörk og því samanlagt með jafn mörg mörk og Sandra. Sandra er jafnframt með jafn mörg mörk og liðsfélagar hennar til samans í deildinni.
  • 20  Lidija Kuliš spilaði sinn 20. leik fyrir Þór/KA. Þar af eru 14 í Bestu delidinni, þrír í Mjólkurbikarnum og fjórir í Lengjubikarnum.
  • 70 - Amalía Árnadóttir spilaði sinn 70. leik í meistaraflokki. Þar af eru 49 með Þór/KA, 11 með Hömrunum og tíu með Völsungi.
  • 150  Sandra María Jessen hefur skorað 150 mörk í meistaraflokksleikjum í mótum á vegum KSÍ og Evrópuleikjum. 
  • 170 - Hulda Ósk Jónsdóttir spilaði sinn 170. leik í efstu deild. Þar af eru 154 fyrir Þór/KA, en 16 fyrir KR.

Sandra María Jessen - 20 mörk í 18 leikjum, 150 mörk í leikjum í meistaraflokki með Þór/KA.

Mynd: Þórir Tryggva.

Lidija Kuliš - 20 leikir fyrir Þór/KA.


Mynd: Þórir Tryggva.

Amalía Árnadóttir - 70 leikir í meistaraflokki.


Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson.

Hulda Ósk Jónsdóttir 170 leikir í efstu deild.


Mynd: Þórir Tryggva.