Besta deildin: Hrikalega svekkjandi endir eftir góða frammistöðu

Leikmenn fagna markinu sem Hulda Ósk Jónsdóttir skoraði. Margrét Árnadóttir, Bríet Jóhannsdóttir, Hu…
Leikmenn fagna markinu sem Hulda Ósk Jónsdóttir skoraði. Margrét Árnadóttir, Bríet Jóhannsdóttir, Hulda Ósk, Sandra María Jessen og Lara Ivanuša. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson.
- - -

Þrátt fyrir flotta frammistöðu í leik liðsins gegn Val í 10. umferð Bestu deildarinnar varð uppskeran engin. Þór/KA komst yfir þegar stundarfjórðungur var liðinn af seinni hálfleik, en Valur skoraði tvívegis á lokamínútunum og hirti stigin sem í boði voru. 

Ekkert var skorað í frekar rólegum fyrri hálfleik, en eftir stundarfjórðung í þeim seinni vann Bríet Jóhannsdóttir boltann á hægri kantinum, boltinn barst til Huldu Óskar Jónsdóttur við vítateigshornið þar sem hún kom sér af mikilli yfirvegun í góða skotstöðu og skoraði glæsilegt mark með vinstri, yfir markvörð Vals og boltinn þandi svo netmöskva hliðarnetsins fjær. Þetta glæsimark dugðu þó ekki til sigurs því gestirnir náðu að skora tvívegis þegar skammt var eftir af leiknum. Hrikalega svekkjandi niðurstaða og alls ekki sanngjörn, en það eru mörkin sem telja og því miður fóru öll stigin suður. 

Þór/KA hefur engu að síður stimplað sig inn sem verðugt toppbaráttulið, lið sem berst um þá titla sem eru í boði. Liðið fór í undanúrslit Lengjubikars, hefur lengst af verið í 3. sæti og í humátt á eftir toppliðum Bestu deildarinnar og á fyrir höndum leik í undanúrslitum Mjólkurbikarsins. Það er ekki tilviljun að liðið er á þessum stað, leikmenn og þjálfarar hafa unnið fyrir því að koma liðinu í þessa stöðu. Það gerist sannarlega ekki af sjálfu sér. 

Þór/KA - Valur 1-2 (0-0)

Molar og fróðleikur

  • 4 - Nafnið Þórður kemur fjórum sinnum fyrir í lista yfir dómara leiksins í gær. Skagamaðurinn Þórður Þorsteinn Þórðarson dæmdi leikinn og annar aðstoðardómara var Sveinn Þórður Þórðarson. Hinn aðstoðardómarinn og eftirlitsmaður KSÍ bera báðir millinafnið Þór, Ásgeir Þór Ásgeirsson og Tryggvi Þór Gunnarsson. 
  • 11 - Alls hafa 11 leikmenn skorað þau 26 mörk sem Þór/KA hefur skorað í fyrstu tíu leikjum Bestu deildarinnar. Hulda Ósk Jónsdóttir bættist í þann hóp með glæsimarkinu í gær, en hún hafði áður skorað eitt marka liðsins í Mjólkurbikarkeppninni.
  • 180 - Karen María Sigurgeirsdóttir spilaði í gær sinn 180 meistaraflokksleik í mótum á vegum KSÍ. Þar af eru 127 fyrir Þór/KA.
  • 254 - Áætlaður fjöldi áhorfenda á leiknum og enn er það nokkur ráðgáta að við fáum ekki fleiri á leikina hjá okkur. Erum þakklát öllum þeim sem mæta en það myndi gleðja okkur mjög að fá fleiri. Leikurinn í gær var þó fjölsóttasti heimaleikurinn okkar í Bestu deildinni í sumar.
  • 900 - Margrét Árnadóttir er eini leikmaðurinn í hópnum sem hefur spilað allar mínútur í öllum tíu leikjum liðsins í Bestu deildinni í sumar, samtals 900 mínútur og eru þá ótaldar viðbótarmínútur sem spilaðar eru í hverjum leik. Sérfræðingar eru líklega orðnir svo vanir henni inni á vellinum að hún fær sjaldnast athygli sem ein af þeim bestu eða í liðum umferðanna í fjölmiðlum - en var þó valin best í leiknum gegn Fylki í Bestu mörkunum. Hún komst hins vegar ekk einu sinni á varamannabekkinn í liði fyrri hlutans (umferða 1-9) á vefmiðlinum fotbolti.net. Margrét spilaði í gær 110. leik sinn í efstu deild á Íslandi.


Hulda Ósk Jónsdóttir hleður í skot með vinstri. Skömmu síðar þandi boltinn netmöskvana í hliðarnetinu fjær. Anna Björk Kristjánsdóttir og Anna Rakel Pétursdóttir ná ekki að koma vörnum við. Berglind Rós Ágústsdóttir fylgist með. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson.

Karen María Sigurgeirsdóttir í leiknum í gær. Mynd: Þórir Tryggva.


Margét Árnadóttir einbeitt á svip, eins og dómarinn, Þórður Þorsteinn Þórðarson. Mynd: Þórir Tryggva.

Þórður! Sveinn Þórður og Þórður Þorsteinn, báðir Þórðarsynir. Mynd: Egill Bjarni Friðjónsson.