Karfan er tóm.
Sumarblíðan á Samsung-vellinum fór vel í okkar konur þegar þær unnu verðskuldaðan sigur á Stjörnunni, 4-1, í 8. umferð Bestu deildarinnar. Sandra María Jessen skoraði sitt 100. mark í efstu deild á Íslandi.
Leikmenn og þjálfarateymi Þórs/KA staðfesta þessa dagana í hverjum leiknum á fætur öðrum orðatiltækið sem segir að maður komi í manns stað. Þrátt fyrir forföll vegna veikinda, meiðsla eða annars vantar aldrei leikmann í liðið. Ef minnst er á meiðsli er það að frumkvæði þeirra sem spyrja og skrifa fyrir fjölmiðla. Þegar ein getur ekki byrjað leikinn kemur önnur í hennar stað og skilar sínu verkefni með sóma, eins og allt liðið. Einmitt þetta hefur verið uppi á teningnum að undanförnu, mögulega meira en nokkru sinni áður. Hver á fætur annarri mæta okkar eigin, ungu, heimaöldu knattspyrnukonur og láta ljós sitt skína með liðinu svo eftir er tekið. Ein þeirra, Hildur Anna Birgisdóttir, skoraði sitt fyrsta meistaraflokksmark beint úr hornspyrnu um tveimur mínútum eftir að henni var skipt inn á fyrir aðra sem nýlega skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild, Emelíu Ósk Krüger.
Ekkert óðagot við að lenda undir
Það virðist engu skipta þótt Þór/KA liðið fái blauta tusku í andlitið, eins og í dag þegar Stjarnan náði forystunni á 6. mínútu eftir aukaspyrnu frá Andreu Mist Pálsdóttur og atgang í teignum þar sem Hrefna Jónsdóttir skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild. Blauta tuskan er einfaldlega notuð til að þrífa upp eftir sig.
Leikurinn var jafn framan af, en Þór/KA sótti í sig veðrið eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn. Sandra María Jessen jafnaði metin eftir hálftíma leik þegar hún stýrði skoti/sendingu Agnesar Birtu Stefánsdóttur í mark Stjörnunnar. Þetta var 100. mark Söndru Maríu í efstu deild hér á landi, sannarlega merkisviðburður.
Annar merkisviðburður átti sér stað í upphafi seinni hálfleiks þegar Hildur Anna Birgisdóttir skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild beint úr hornspyrnu, aðeins um tveimur mínútum eftir að hún kom inn sem varamaður. Þór/KA hafði góð tök á leiknum allan seinni hálfleikinn og aðeins tveimur mínútum eftir mark Hildar Önnu bætti Margrét Árnadóttir þriðja markinu við og Sandra María því fjórða þegar rúmar 20 mínútur voru eftir af leiknum.
Stjarnan - Þór/KA 1-4 (1-1)
Þór/KA hefur þar með unnið sex af fyrstu átta leikjum sínum í deildinni í sumar og er í 3. sætinu með 18 stig, jafn mörg stig og Valur og þremur stigum á eftir Breiðabliki, en bæði liðin hafa leikið einum leik færra en Þór/KA.
Þrír næstu leikir liðsins í Bestu deildinni eru heimaleikir, sá fyrsti gegn Fylki næsta föstudag, 21. júní, síðan á móti Val 25. júní og FH 3. júlí, en þar inn á milli kemur svo einnig heimaleikur í undanúrslitum Mjólkurbikarkeppninnar þegar við fáum Breiðablik í heimsókn norður.
Eftir gott gengi á árinu, í Lengjubikarnum, Mjólkurbikarnum og Bestu deildinni, er það enn nokkur ráðgáta að fá aðeins um 180-200 manns á hvern heimaleik. Liðið hefur spilað skemmtilega knattspyrnu, flestir leikirnir á þessu ári hafa verið sannkallaðar markaveislur og bráðskemmtilegt að fylgjast með liðinu. Ekki skemmir það heldur fyrir að af 23 leikmönnum sem komið hafa við sögu í leikjum liðsins í Bestu deildinni það sem af er sumri eru 18 heimakonur, ein frá Húsavík, ein í lani frá val og þrjár erlendar.
Hér er því ákall til Akureyringa og annarra stuðningsmanna um að opna augun fyrir því að konur spila líka knattspyrnu, ekkert síður skemmtilega en karlarnir, oft skemmtilegri, satt best að segja. Það þarf enginn að skammast sín fyrir að horfa á og styðja Þór/KA og hafa gaman af því að fylgjast með konum spila knattspyrnu. Fram undan eru áhugaverðir heimaleikir, meðal annars við tvö efstu liðin í Bestu deildinni, mögulega tvö bestu lið landsins. Kíkið á völlinn og sýnið stelpunum okkar stuðning í verki, það skiptir máli.
Hildur Anna Birgisdóttir skoraði sitt fyrsa meistaraflokksmark og þar með einnig fyrsta mark í efstu deild beint úr hornspyrnu þegar hún hafði verið í tæpar tvær mínútur inni á vellinum. Mynd: Þórir Tryggva.
Lidija Kuliš spilaði sinn 10. leik fyrir Þór/KA. Mynd: Þórir Tryggva.
Bryndís Eiríksdóttir hefur spilað 70 meistaraflokksleiki, þar af sex leiki í efstu deild, alla með Þór/KA: Mynd: Þórir Tryggva.
Sandra María Jessen skoraði sitt 100. mark í efstu deild á Íslandi og líka það 101. Mynd: Þórir Tryggva.
Hulda Ósk Jónsdóttir spilaði sinn 160. leik í efstu deild. Mynd: Þórir Tryggva.