Karfan er tóm.
Þór/KA mætir Stjörnunni á útivelli í 8. umferð Bestu deildarinnar í dag. Leikurinn fer fram á Samsung-vellinum í Garðabæ og hefst kl. 16.
Það ætti ekki að væsa um áhorfendur á leiknum í dag því veðurspáin er góð fyrir suðvesturhornið, sólskin, hægur andvari og 14 gráðu hiti. Það er því ástæða til að hvetja okkar fólk á suðvesturhorninu til að mæta í Garðabæinn, styðja stelpurnar til sigurs og njóta þess að horfa á skemmtilegan fótboltaleik. Leikirnir hjá Þór/KA það sem af er ári hafa flestir eða allir verið hin besta skemmtun.
Leikurinn í dag er þriðji leikur Þórs/KA á átta dögum, þar af annar útileikurinn. Liðið spilaði heimaleik í deildinni síðastliðinn laugardag og útileik í bikarkeppninni á þriðjudag. Eftir sjö umferðir er Þór/KA í 3. sæti deildarinnar með 15 stig, hefur unnið fimm leiki og tapað tveimur. Stjarnan er í 5. sæti með níu stig, hefur unnið þrjá leiki, en tapað fjórum.
Þór/KA og Stjarnan hafa mæst 39 sinnum í efstu deild kvenna enda hafa liðin verið samferða í deildinni frá árinu 2006, en fyrstu viðureignirnar voru þó árið 2000. Stjarnan hefur vinninginn þegar teknir eru saman sigrar, jafntefli og töp í þessum 39 leikjum.
Í fyrra vann Þór/KA 1-0 á Samsung-vellinum í fyrstu umferð mótsins með marki frá Söndru Maríu Jessen. Liðin gerðu 3-3 jafntefli á Þórsvellinum í skrautlegum leik þar sem Stjarnan skoraði þrjú í fyrri hálfleik og Þór/KA þrjú í þeim seinni. Þar skoruðu Hulda Björg Hannesdóttir og Karen María Sigurgeirsdóttir tvö af okkar mörkum, en þriðja markið var úrskurðað sjálfsmark. Í keppninni í efri hlutanum í lok móts hafði Stjarnan betur, 3-1, á VÍS-vellinum (skipt um nafn á vellinum á miðju tímabili) og þá skoraði Hulda Björg Hannesdóttir aftur á móti Stjörnunni.
Meðal leikmanna sem leikið hafa bæði með Stjörnunni og Þór/KA í gegnum tíðina eru Sandra Sigurðardóttir, Elva Friðjónsdóttir, Eyrún Guðmundsdóttir, Jóhanna Guðrún Jóhannesdóttir, Margrét Guðný Vigfúsdóttir, Írunn Þorbjörg Aradóttir, Heiða Ragney Viðarsdóttir, Andrea Mist Pálsdóttir og Karlotta Björk Andradóttir, en þær Andrea Mist og Karlotta Björk í herbúðum Garðabæjarliðsins í dag.