Besta deildin: Heimaleikur gegn FH í kvöld

Þór/KA tekur á móti FH í 11. umferð Bestu deildarinnar í kvöld kl. 18.

Búast má við hörkuleik á VÍS-vellinum í kvöld þar sem liðin sem mætast eru í 3. og 4. sæti deildarinnar. Þór/KA er með 21 stig og FH með 16 stig og hefur unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum sínum í deildinni. Eflaust horfa gestirnir á þann möguleika að með sigri verði FH aðeins tveimur stigum á eftir Þór/KA, en að sama skapi getur Þór/KA breikkað bilið upp í átta stig með sigri. 

Upphitun og aðdragandi leiksins verða með hefbundnum hætti. Grillið funheitt og borgarnarnir ljúffengir beint af grillinu, Jói í sófanum eða Peddi á pallinum um kl. 17:15, Bestudeildarspjöldin til sölu í sjoppunni ásamt fleiru. Stelpurnar vonandi sjóðheitar í leiknum eins og oftast áður og stuðningsfólkið fyllir auðvitað stúkuna og styður stelpurnar til sigurs.

Þór/KA tapaði naumlega fyrir Val í síðustu umferð, 1-2, en FH vann 4-1 sigur á Tindastóli. Fyrri viðureign þessara liða í deildinni í lok apríl fór fram á BIRTU-vellinum (Ásvöllum) í Hafnarfirði, heimavelli Hauka, þar sem Kaplakrikavöllur var ekki tilbúinn. Það hentaði FH-ingum greinilega ekki vel enda æfir liðið ekki þar og völlurinn ekki eiginlegur heimavöllur liðsins. Þór/KA vann 4-0 sigur í leik þar sem Sandra María Jessen skoraði öll mörkin.

Þór/KA með yfirhöndina í innbyrðis viðureignum

Þessi félög mættust þrisvar í deildinni í fyrra. Leikirnir í deildarkeppninni unnust báðir á útivelli. FH vann 2-0 sigur á Þórsvellinum, en Þór/KA vann 1-0 í Kaplakrika. Markalaust jafntefli varð í leik liðanna í efri hlutanum í lok móts. Viðureignir þessara liða í efstu deild Íslandsmótsins eru samtals orðnar 24 og hefur Þór/KA vinninginn, 17 sigra á móti þremur. FH hefur hins vegar unnið tvær síðustu viðureignir liðanna hér fyrir norðan, 2022 og 2020, en þar á undan vann Þór/KA 9-1  sigur á Þórsvellinum 2018. 

Meðal leikmanna sem hafa komið við sögu hjá báðum liðum í gegnum tíðina er Andrea Mist Pálsdóttir, sem fór frá Þór/KA til Ítalíu og þaðan í FH. Lillý Rut Hlynsdóttir, núverandi leikmaður Vals var hjá FH á lánssamningi í fyrrasumar, en hún hóf meistaraflokksferilinn í Þór/KA eins og Andrea Mist.

Einnig má nefna að Arna Eiríksdóttir er leikmaður og fyrirliði FH, en hún var hjá Þór/KA sumarið 2022 á lánssamningi frá Val. Systir hennar, Bryndís Eiríksdóttir, spilar um þessar mundir fyrir Þór/KA, einnig á lánssamningi frá Val. Sandra Nabweteme skipti úr Þór/KA í FH á miðju sumri 2021 og þær Colleen Kennedy og Shaina Ashouri sem einnig voru hjá Þór/KA sumarið 2021 skiptu í FH fyrir tímabilið 2022. Engin þessara þriggja er reyndar í herbúðum FH í dag. Vigdís Edda Friðriksdóttir var hjá Þór/KA fyrri hluta sumars 2022, en skipti síðan í FH. Dragana Stojanovic og Ivana Ivanovic voru báðar hjá FH 2006 og svo Þór/KA 2007 og 2008. Eflaust eiga fleiri leikmenn að baki leiki með meistaraflokkum beggja félaga enda er þessi listi eingöngu byggður á minni og félagaskiptum sem hafa átt sér stað beint á milli félaganna.