Besta deildin: Frítt á leik Þórs/KA og Stjörnunnar í boði VÍS

Þór/KA tekur á móti liði Stjörnunnar í 17. umferð Bestu deildar kvenna á VÍS-vellinum á Akureyri í dag kl. 17:30. Ókeypis aðgangur, VÍS býður á völlinn.

Í dag er því kjörið tækifæri fyrir Akureyringa að fjölmenna á völlinn og styðja stelpurnar okkar til sigurs, nota tækifærið og sleppa kvöldmatnum, skella í einn borgara eða tvo beint af grillinu og láta svo vel í sér heyra í stúkunni. Þannig ganga hlutirnir best fyrir sig, hærra saman!

Fyrir leikinn í dag er Þór/KA í 3. sæti deildarinnar með 28 stig, en Stjarnan í 7. sæti með 20 stig, jafn mörg og Þróttur sem er sæti ofar. Þessi lið eru í harðri baráttu um sæti í efri hluta deildarinnar eftir tvískiptingu, en nú eru aðeins tvær umferðir eftir af hefðbundnu deildarkeppninni. Þór/KA hefur haft tangarhald á 3. sætinu um tíma, en nú hefur bilið minnkað og stigin þrjú því mikilvæg í baráttunni um að halda því sæti.

Stjarnan stendur betur að vígi í innbyrðis viðureignum þessara liða í efstu deild, en þær eru samtals orðnar 40. Stjarnan hefur unnið 22 leiki, en Þór/KA 11.

4

Í fyrra vann Þór/KA 1-0 á Samsung-vellinum í fyrstu umferð mótsins með marki frá Söndru Maríu Jessen. Liðin gerðu 3-3 jafntefli á Þórsvellinum í skrautlegum leik þar sem Stjarnan skoraði þrjú í fyrri hálfleik og Þór/KA þrjú í þeim seinni. Þar skoruðu Hulda Björg Hannesdóttir og Karen María Sigurgeirsdóttir tvö af okkar mörkum, en þriðja markið var úrskurðað sjálfsmark. Í keppninni í efri hlutanum í lok móts hafði Stjarnan betur, 3-1, á VÍS-vellinum (skipt um nafn á vellinum á miðju tímabili) og þá skoraði Hulda Björg Hannesdóttir aftur á móti Stjörnunni.

Fyrri leik liðanna í Bestu deildinni í sumar lauk með 4-1 sigri Þórs/KA á Samsung-vellinum í Garðabæ þar sem Sandra María Jessen skoraði tvö mörk, Hildur Anna Birgisdóttir eitt og Margrét Árnadóttir eitt.