Sandra María Jessen skoraði öll mörkin í fjögurra marka sigri Þórs/KA á FH í 2. umferð Bestu deildarinnar í dag.
Þór/KA náði forystunni snemma leiks þegar Sandra María skoraði af stuttu færi eftir undirbúning frá Kimberley Dóru. Hún bætti við öðru marki í fyrri hálfleiknum þegr Lara átti góða sendingu inn fyrir vörn FH. Tveggja marka forysta eftir fyrri hálfleikinn. FH-ingar gerðu atlögu að því að minnka muninn, en tókst ekki. Sandra María bætti hins vegar við tveimur mörkum seint í leiknum og er orðin markahæst í eftir tvær umferðir í Bestu deildinni með fimm mörk.
FH - Þór/KA 0-4 (0-2)
Molar og fróðleikur
- 1 - Lara Ivanuša spilaði sinn fyrsta leik í efstu deild á Íslandi. Hún missti af leiknum gegnm Val í 1. umferðinni vegna veikinda.
- 1 - Bryndís Eiríksdóttir, sem Þór/KA fékk til sín á lánssamningi frá Val, spilaði sínar fyrstu mínútur í keppnisleik með Þór/KA og sinn fyrsta leik í efstu deild.
- 4 - Ferna Söndru Maríu er, eftir því sem hún man best, sú fyrsta sem hún skorar í 11 manna bolta.
- 19 - Leikurinn var sá síðasti sem Ísfold Marý Sigtryggsdóttir spilaði fyrir tvítugt því hún fagnar tvítugsafmælinu í dag, fædd 28. apríl 2004.
- 40 - Agnes Birta Stefánsdóttir spilaði sinn 40. leik í efstu deild.
- 94 - Sandra María bætir félagsmetið hjá Þór/KA í hvert skipti sem hún skorar í Bestu deildinni. Hún er nú komin í 94 mörk í efstu deild á Íslandi. Hún hefur spilað samtals 203 leiki í efstu deildum á Íslandi, í Tékklandi og Þýskalandi.
- 100 - Karen María Sigurgeirsdóttir spilaði sinn 100. leik í efstu deild. Þar af eru 83 fyrir Þór/KA og 17 fyrir Breiðablik.
- Ferming - Bríet Fjóla Bjarnadóttir fermdist í gærmorgun kl. 10:30, flaug suður um tvöleytið, mætti í leikinn í Hafnarfirðinum, kom inn sem varamaður á 86. mínútu og ferðaðist heim með liðinu í gærkvöld. Fermingarveisln er í dag. Þetta var hennar þriðja innkoma í leik í Bestu deildinni. Tvö fyrstu skiptin voru sem sagt fyrir fermingu.
- 792 - Tveir feður og einn afi leikmanna óku þessa vegalengd í sjálfboðavinnu fyrir félagið í gær. Tveir fyrstu útileikirnir: 1.552 km, sex bílstjórar í sjálfboðavinnu.
- 936 - Vegalengdin sem Jóhann Kristinn Gunnarsson ók í gær og stýrði liðinu okkar til sigurs. Hann býr nefnilega á Húsavík.