Besta deildin: „Ég er ekki boltasækir“

 

Enn einn útisigurinn bættist í safnið þegar Þór/KA heimsótti Keflvíkinga í 14. umferð Bestu deildarinnar. Glæsilegt mark Huldu Óskar Jónsdóttur í seinni hálfleik réði úrslitum. Þór/KA er áfram í 3. sæti deildarinnar.

Markalaust var eftir fyrri hálfleikinn, en Hulda Ósk skoraði eina mark leiksins á 58. mínútu með glæsilegu skoti utan teigs upp í markhornið fjær. Eins og stundum áður látum við aðra fjölmiðla um að skrifa um gang leiksins og taka viðtöl, sjá krækjur hér neðar í þessari umfjöllun. Við höldum áfram með tölur og fróðleik og hendum stuttri sögu úr leik gærdagsins með.

Fjölmiðlar tóku eftir því að í byrjun leiks voru boltasækjar Keflvíkinga nokkrum áratugum eldri en oftast er á leikjum, en unga kynslóðin tók svo við eftir að leikur hófst. „Ég er ekki boltasækir,“ verða kannski ekki fleyg orð í mannkynssögunni en þetta sagði Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, þegar leið á leikinn og heimafólk vildi að hann hjálpaði til að halda uppi hraða leiksins með því að koma bolta sem fyrst til þeirra svo hægt væri að halda leik áfram. Það vill nefnilega þannig til að í flestum leikjum er það svo að öðru liðinu liggur ekkert á, en hitt liðið þarf að flýta sér. Þetta markast auðvitað af stöðunni í leiknum og markmiðum liðanna. Heimafólki fannst hlutirnir ganga heldur hægt þegar leið á leikinn, eftir að eina mark leiksins var skorað, og eitt sinn þegar boltinn fór út af og endaði hjá Jóa lá heimakonum á að fá boltann aftur og koma honum í leik. Jóhann var hins vegar staddur þarna sem þjálfari og hafði engar skyldur sem tengdust því að sækja bolta og útskýrði það á þennan einfalda hátt: „Ég er ekki boltasækir.“

Önnur smásaga úr leik gærdagsins tengist ferðalaginu. Norlandair er eitt af samstarfsfyrirtækjum Þórs/KA og sá um að flytja liðið að heiman og heim í 19 sæta Twin Otter flugvél. Mæting á Akureyrarflugvöll kl. 14:30, brottför áætluð 15:00. Þjálfarar og tveir leikmenn fóru reyndar akandi að morgni af ástæðum sem eru ekki hluti af þessari smásögu. Þegar 16 knattspyrnukonur og einn hjálparkokkur biðu eftir því að fara í flugið kom babb í bátinn. Flugmaðurinn tilkynnti að veðurspá fyrir Keflavík hefði breyst, aukna líkur á þoku og sennilega bara 50% líkur á því að hægt yrði að lenda í Keflavík. Þarna vandaðist málið. Ættum við að stefna á Keflavík og vona það besta, en þurfa svo kannski að snúa til Reykjavíkur, taka bílaleigubíla þar og aka síðasta spölinn? Ef sú staða hefði komið upp hefði þurft að seinka leiknum um klukkutíma eða svo. Hjálparkokkurinn hringdi í þjálfarann, stjórnarmann og mótavakt KSÍ og gerði viðvart, til að við værum öll á sömu blaðsíðu ef til þess kæmi að Reykjavíkurflugvöllur yrði áfangastaðurinn. Bjartsýnin réði hins vegar ríkjum, flogið til Keflavíkur og þegar þangað var komið var lending möguleg og ekkert rask á leiknum.

Þessi flugsaga minnti flestar í hópnum svo á aðra flugferð sem farin var í lok tímabils 2022. Þá var stefnan sett á Reykjavíkurflugvöll og þaðan í Vesturbæinn til að mæta KR í lokaumferð mótsins. Þá kom hins vegar í ljós að stórslysaæfing í Reykjavík kom í veg fyrir að við fengjum lendingarleyfi þar svo þá var flogið til Keflavíkur og svo keyrt til Reykjavíkur. 

Nóg af ferðasögum í bili. Leikurinn og fréttir af honum.

Keflavík - Þór/KA 0-1 (0-0)

Tveir leikir eru í 14. umferðinni í dag. Næsti leikur hjá Þór/KA verður gegn Tindastóli á Sauðárkróki þriðjudaginn 30. júlí kl. 18. Sá leikur hefði átt að vera heimaleikur hjá Þór/KA, en liðin skiptu á heimaleikjum í maí vegna skemmda sem urðu á Sauðárkróksvelli í leysingum í vor.

Molar og fróðleikur

  • - Þór/KA er nú með einu stigi meira eftir 14 umferðir en liðið var með eftir 18 umferðir í fyrra. Stigin núna eru orðin 27, en voru 26 í fyrra þegar kom að tvískiptingu deildarinnar. Nú vantar líka eitt stig upp á að ná sama stigafjölda og náðist í 18 leikjum sumarið 2019.
  • 7 - Frá því að flestir leikmenn Þórs/KA lögðu upp í flugferð frá Akureyri til Keflavíkur til að spila leikinn þar til aftur var lent á Akureyrarflugvelli liðu sjö tímar. Það kann að hljóma undarlega fyrir lið sem spila flesta sína leiki við nágrannalið á suðvesturhorninu, en þetta eru tíðindi hjá okkur því í flesta útileiki leggur hópurinn af stað akandi frá Akureyri snemma að morgni og kemur heim í kringum tvö að nóttu. Þannig fer að jafnaði alltaf heill (vinnu)dagur í hvern leik og iðulega um 16 tímar frá brottför til heimkomu með tilheyrandi þreytu í vinnu daginn eftir. Sjö tímar og komnar heim í háttinn vel fyrir miðnætti er því kærkomin tilbreyting.
  • 10 - Lara Ivanuša spilaði sinn 10. leik í efstu deild hér á landi.
  • 50 - Agnes Birta Stefánsdóttir spilaði sinn 50. leik í efstu deild.
  • 60 - Harpa Jóhannsdóttir spilaði sinn 60. leik í efstu deild og átti stóran þátt í því að Þór/KA dugði eitt mark til að vinna leikinn.
  • 110 - Karen María Sigurgeirsdóttir spilaði sinn 110. leik í efstu deild. 
  • 140 - Hulda Björg Hannesdóttir spilaði sinn 140. leik í efstu deild.
  • 170 - Margrét Árnadóttir spilaði sinn 170. leik í meistaraflokki þegar talin eru mót á vegum KSÍ og Evrópukeppnir. 
  • 200 - Hulda Björg spilaði einnig sinn 200. leik í meistaraflokki. Allir leikirnir eru fyrir Þór/KA. Af þessum 200 eru 140 í Íslandsmótinu, efstu deild, 15 bikarleikir 38 leikir í deildabikar, tveir í Meistarakeppni KSÍ og fimm Evrópuleikir.

 


10 leikir í efstu deild á Íslandi - Lara Ivanuša


50 leikir í efstu deild - Agnes Birta Stefánsdóttir.


60 leikir í efstu deild - Harpa Jóhannsdóttir



110 leikir í efstu deild - Karen María Sigurgeirsdóttir.


200 leikir í meistaraflokki, 140 leikir í efstu deild - Hulda Björg Hannesdóttir.


170 leikir í meistaraflokki - Margrét Árnadóttir.