Besta deildin: Baráttusigur í Víkinni

Þór/KA vann sinn þriðja leik í röð í Bestu deildinni þegar liðið mætti bikarmeisturum og meisturum meistaranna í Víkingi á þeirra heimavelli. Mark á upphafsmínútunum náði ekki að brjóta niður baráttuglatt lið Þórs/KA sem svaraði með tveimur mörkum á innan við hálftíma. 

Þór/KA er í þriðja sæti deildarinnar með níu stig úr fjórum leikjum, þremur stigum á eftir Breiðabliki og Val sem eru með fullt hús stiga. Hér á heimasíðunni verður áfram sama aðferð, við skrifum lítið um leikina sjálfa og setjum þess í stað inn helstu upplýsingar og tengla á umfjöllun hinna ýmsu fjölmiðla. Endum svo á alls konar molum og fróðleik um okkar konur.

Víkingur - Þór/KA 1-2 (1-2)

Molar og fróðleikur

  • 1 - Hildur Anna Birgisdóttir (2007) var í fyrsta skipti í byrjunarliði í leik í Bestu deildinni í gær, en hún hafði áður komið inn sem varamaður í fyrstu þremur leikjum liðsins í deildinni. Hún náði þó því miður ekki að klára fyrri hálfleikinn því eftir spark frá andstæðingi þurfti hún að fara af velli eftir 36 mínútna leik.
  • - Shelby Money spilaði sinn fyrsta leik í efstu deild í gær þegar hún varði mark Þórs/KA. Shelby var varamaður í næstu tveimur leikjum á undan, en kom ekki við sögu. Húnv ar hins vegar ekki í hóp í fyrstu umferðinni gegn Val, var ekki komin með leikheimild.
  • - Markið sem Ísfold Marý Sigtryggsdóttir skoraði á 17. mínútu var hennar annað mark í efstu deild. Það fyrsta skoraði hún í 3-1 sigri í Keflavík 2022. Næsti andstæðingur Þórs/KA er einmitt lið Keflavíkur.
  • - Sandra María skorar í hverjum leik, er komin í átta mörk í fjórum leikjum, en í gær brá svo við að hún er ekki lengur sú eina sem hefur skorað mörk liðsins í Bestu deildinni í sumar. Sandra er á toppi markaskorara í deildinni.
  • 130 - Hulda Björg Hannesdóttir spilaði í gær sinn 130. leik í efstu deild. 
  • 157 - Sandra María Jessen er orðin næstleikjahæst leikmanna Þórs/KA í efstu deild, skv. mbl.is. Hún fór í gær upp fyrir Láru Einarsdóttur sem spilaði 156 leiki með liðinu í efstu deild, en á enn eftir 40 leiki til að jafna við Örnu Sif Ásgrímsdóttur sem spilað hefur 197 leiki fyrir Þór/KA í efstu deild. Arna Sif gæti auðvitað átt eftir að bæta við leikjum með Þór/KA í efstu deild þótt síðar verði, en hún leikur með Val og er frá æfingum og keppni á yfirstandandi tímabili vegna meiðsla. Lára er núna á sínu fjórða tímabili með HK í næstefstu deild.
  • 323 - er opinber tala yfir fjölda áhorfenda á leiknum í gær, en hér verður ekkert fullyrt um það hvort sú tala stenst.
  • 762 - Þór/KA-fjölskyldan heldur áfram að gefa og í gær keyrðu báðir foreldrar einnar í hópnum og faðir annarrar liðið suður og heim í sjálfboðavinnu, 762 kílómetra, Akureyri-Reykjavík-Akureyri. Samanlagt eru kílómetrarnir orðnir 2.314 í fyrstu fjórum umferðum deildarinnar.