Besta deildin: Naumt tap fyrir Íslandsmeisturunum

Sólin hafði óheppileg áhrif í fyrri hálfleiknum, eins og ráða má af svip leikmanna. Gestirnir höfðu …
Sólin hafði óheppileg áhrif í fyrri hálfleiknum, eins og ráða má af svip leikmanna. Gestirnir höfðu sólina í bakið í fyrri hálfleiknum, en svo var hún horfin bakvið fjöllin í þeim seinni. Mynd: Þórir Ó. Tryggvason.
- - -

Eitt mark skildi liðin að þegar Þór/KA tók á móti Val á Greifavellinum í kvöld í 2. umferð efri hluta Bestu deildarinnar. Valur vann 1-0 og Anna Rakel Pétursdóttir skoraði eina mark leiksins á 9. mínútu. 

Seint í leiknum fékk Valur víti sem virtist ódýrt – „hún flæktist bara í reimunum hjá mér“ sagði sú sem dæmd var brotleg í viðtali við mbl.is – en það tækifæri fór þó forgörðum þegar vítaskytta Vals skaut framhjá.

Þór/KA heldur 3. sætinu, er einu stigi á undan liði Víkings. Þór/KA hefur 33 stig, en Víkingur 32. Bæði liðin eiga þrjá leiki eftir og þar á meðal mætast þau á Greifavellinum í lokaumferðinni 5. október.

Þór/KA - Valur 0-1 (0-1)

Molar og fróðleikur

  • - Karen Hulda Hrafnsdóttir var í fyrsta skipti í leikmannahópi Þórs/KA í leiknum, en kom ekki við sögu.
  • 11 - Þjálfarar og stuðningsfólk falla stundum í þá gryfju þegar úrslit falla ekki með liðinu þeirra að telja upp leikmenn sem vantar. Þór/KA byrjaði með 11 leikmenn inni á vellinum í gær og sjö varamenn. Þannig vantaði enga. Það er hins vegar fróðlegt að skoða hvaða knattspyrnukonur voru ekki á skýrslu. Þar má nefna fjórar sem farnar eru til náms og knattspyrnuiðkunar í Bandaríkjunum, tvær sem fengu lausn frá samningi og eru á leið til félags í Abu Dhabi, eina sem sleit krossband í janúar og hefur ekkert spilað í sumar, eina sem er á láni hjá Völsungi, tvær sem meiddust nýlega og voru ekki með í dag, og eina sem er á láni frá keppinautum gærdagsins og var þar að auki í leikbanni í gær. Þarna er komið heilt byrjunarlið af leikmönnum sem voru ekki með. Þessum 11 sem „vantaði“ mætti raða saman í byrjunarlið, að vísu með heldur óvenjulegri uppstillingu, 4-2-4: Mark: Harpa. Vörn: Bryndís, Iðunn Rán, Lidija, Steingerður. Miðja: Kimberley Dóra, Ísfold Marý. Sókn: Una Móeiður, Lara, Sonja Björg, Krista Dís.
  • 16 - Meðalaldur varamanna Þórs/KA í gær var 16 ár eða svona um það bil, miðað við þann aldur sem hver og einn leikmaður nær á árinu. Meðalaldur byrjunarliðsins var rúm 23 ár og meðalaldur hópsins, 18 leikmanna, er rétt rúm 20 ár. 
  • 16 - Af 18 leikmönnum Þórs/KA á leikskýrslu koma 16 úr röðum Akureyrarfélaganna. Reglulega koma fram fullyrðingar um að hitt eða þetta félag tefli fram fleiri heimaöldum leikmönnum en nokkurt annað félag í sömu deild eða bara á landinu. Í leiknum við Val var ein erlend knattspyrnukona í byrjunarliði Þórs/KA (Shelby Money), ein kemur upphaflega frá Húsavík (Hulda Ósk Jónsdóttir, sem er á sínu 9. tímabili hjá Þór/KA), en hinar koma allar úr yngri flokkum Þórs, KA og Þórs/KA. Allar á varamannabekk Þórs/KA í leiknum koma úr röðum Akureyrarfélaganna.
  • 24 - Svo það sé rifjað upp sem áður hefur komið fram hér á síðunni þá hafa 24 leikmenn komið við sögu í leikjum liðsins í Bestu deildinni í sumar. Þar af eru þrjár erlendar knattspyrnukonur, Hulda Ósk frá Húsavík, Bryndís Eiríksdóttir á láni frá Val og 19 sem komið hafa upp í meistaraflokk úr yngri flokkum Akureyrarfélaganna.
  • 29 - Til viðbótar við þær 24 sem hafa komið við sögu í leikjum liðsins í sumar hafa fimm (Anna Guðný Sveinsdóttir, Bríet Kolbrún Hinriksdóttir, Emelía Blöndal Ásgeirsdóttir, Karen Hulda Hrafnsdóttir og Ragnheiður Sara Steindórsdóttir) verið á skýrslu í einum leik eða fleiri án þess að hafa komið inn á í leikjum liðsins. Af þeim 29 knattpsyrnukonum sem hafa verið á leikskýrslu liðsins í deildinni í sumar eru því 24 sem koma úr yngri flokkum Akureyrarfélaganna. Hér með er óskað eftir ábendingum um lið í efstu deild, nú eða bara einhverri af deildum Íslandsmótsins, með hærra hlutfall heimaalinna leikmanna sem hafa spilað eða verið á leikskýrslu.
  • 30 - Bríet Jóhannsdóttir var í byrjunarliði Þórs/KA í dag í stöðu hægri bakvarðar. Hún spilaði sinn 30. leik í Bestu deildinni.
  • 120  Margrét Árnadóttir spilaði sinn 120. leik í efstu deild á Íslandi, en hún á einnig að baki leiki í efstu deild á Ítalíu á fyrri hluta árs 2023.
  • 290 - Hulda Ósk Jónsdóttir spilaði sinn 290. leik í meistaraflokki. Þar með eru taldir leikir í A-deild, B-deild, bikarkeppni, deildabikar, Reykjavíkurmóti, meistarakeppni KSÍ og Meistaradeild Evrópu.

Bríet Jóhannsdóttir - 30 leikir í efstu deild.

Margrét Árnadóttir 120 leikir í efstu deild á Íslandi.

Hulda Ósk Jónsdóttir 290 leikir í meistaraflokki í öllum mótum.