Barátta og vilji skiluðu sigri og góðri stöðu í Lengjubikar

Sonja Björg Sigurðardóttir skallar að marki Vals eftir hornspyrnu frá Karen Maríu Sigurgeirsdóttur u…
Sonja Björg Sigurðardóttir skallar að marki Vals eftir hornspyrnu frá Karen Maríu Sigurgeirsdóttur undir lok fyrri hálfleiks. Í framhaldinu vildu leikmenn fá dæmt mark þar sem Margrét Árnadóttir hafi náð að sópa honum yfir marklínuna. Mynd: Ármann Hinrik Kolbeinsson.

Eftir markalausan fyrri hálfleik í baráttuleik gegn Val í A-deild Lengjubikarsins skoruðu Sonja Björg Sigurðardóttir og Sandra María Jessen fyrir Þór/KA og tryggðu sigur á Val í Boganum í gær.

Þór/KA fór upp í 2. sæti riðilsins með sigrinum. Það ræðst í lokaumferð riðilsins á þriðjudag og miðvikudag hvaða tvö lið fara áfram í undanúrslit mótsins, en Þróttur, Þór/KA og Valur berjast um þessi tvö sæti. 

Þór/KA - Valur 2-0 (0-0)

Tölur og fróðleikur

  • 1 - Jessica Grace Berlin spilaði sínar fyrstu mínútur fyrir Þór/KA, en hún leysti Hörpu Jóhannsdóttur af í markinu og spilaði seinni hálfleikinn.
  • 4 - Þrjár hafa skorað fjögur mörk í leikjum liðsins í Lengjubikarnum þetta árið. Margrét Árnadóttir skoraði þrennu á móti Tindastóli og eitt mark á móti Fram. Sandra María Jessen skoraði þrennu á móti Tindastóli og eitt á móti Val og Sonja Björg Sigurðardóttir skoraði eitt á móti Tindastóli, tvö hjá Fram og eitt hjá Val. Margrét og Sonja hafa spilað fjóra leiki til þessa, en Sandra María þrjá.
  • 50 - Bríet Jóhannsdóttir spilaði sinn 50. leik í meistaraflokki í KSÍ-mótum og þar með einnig sinn 50. meistaraflokksleik fyrir Þór/KA.
  • 60 - Sonja Björg Sigurðardóttir spilaði sinn 60. leik í meistaraflokki í KSÍ-mótum. Þar af eru 22 fyrir Þór/KA, 11 fyrir Hamrana og 27 fyrir Völsung. Sonja Björg hefur skorað fjögur mörk í fjórum leikjum Lengjubikarsins þetta árið.
  • 90 - Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir spilaði sinn 90. leik í meistaraflokki í KSÍ-mótum. Þar af er 81 leikur fyrir Þór/KA og níu fyrir Hamrana.

- - -

Jessica Berlin spilaði seinni hálfleikinn í gær og hélt hreinu eins og Harpa Jóhannsdóttir í fyrri hálfleiknum. Þetta var hennar fyrsti leikur fyrir Þór/KA. Mynd: Ármann Hinrik Kolbeinsson.
Sonja Björg Sigurðardóttir fagnar marki í sínum 60. meistaraflokksleik. Mynd: Ármann Hinrik Kolbeinsson.
Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir spilaði sinn 90. meistaraflokksleik í gær. Mynd: Ármann Hinrik Kolbeinsson.
Hart barist í leiknum í gær. Hér fylgist Angela Mary Helgadóttir með átökum Huldu Óskar Jónsdóttur við Önnu Rakel Pétursdóttur og Fandísi Friðriksdóttur. Mynd: Ármann Hinrik Kolbeinsson.
Margrét Árnadóttir hefur skorað fjögur mörk í fjórum leikjum í Lengjubikarnum í vetur, og var mjög nærri því að skora mark í gær. Hér er hún ásamt landsliðskonunni Berglindi Rós Ágústsdóttur. Mynd: Ármann Hinrik Kolbeinsson.
Setið í netinu. Sandra María Jessen þurfti að spretta úr spori til að ná boltanum og renna honum í markið, í raun eftir sendingu frá sjálfri sér. Boltinn endaði í netinu og Sandra María líka, bara ekki sama netinu. Getur sú sem skorar mark mögulega fengið skráða stoðsendingu á sjálfa sig? Mynd: Ármann Hinrik Kolbeinsson.