Sonja Björg Sigurðardóttir skallar að marki Vals eftir hornspyrnu frá Karen Maríu Sigurgeirsdóttur undir lok fyrri hálfleiks. Í framhaldinu vildu leikmenn fá dæmt mark þar sem Margrét Árnadóttir hafi náð að sópa honum yfir marklínuna. Mynd: Ármann Hinrik Kolbeinsson.
Eftir markalausan fyrri hálfleik í baráttuleik gegn Val í A-deild Lengjubikarsins skoruðu Sonja Björg Sigurðardóttir og Sandra María Jessen fyrir Þór/KA og tryggðu sigur á Val í Boganum í gær.
Þór/KA fór upp í 2. sæti riðilsins með sigrinum. Það ræðst í lokaumferð riðilsins á þriðjudag og miðvikudag hvaða tvö lið fara áfram í undanúrslit mótsins, en Þróttur, Þór/KA og Valur berjast um þessi tvö sæti.
Þór/KA - Valur 2-0 (0-0)
Tölur og fróðleikur
- 1 - Jessica Grace Berlin spilaði sínar fyrstu mínútur fyrir Þór/KA, en hún leysti Hörpu Jóhannsdóttur af í markinu og spilaði seinni hálfleikinn.
- 4 - Þrjár hafa skorað fjögur mörk í leikjum liðsins í Lengjubikarnum þetta árið. Margrét Árnadóttir skoraði þrennu á móti Tindastóli og eitt mark á móti Fram. Sandra María Jessen skoraði þrennu á móti Tindastóli og eitt á móti Val og Sonja Björg Sigurðardóttir skoraði eitt á móti Tindastóli, tvö hjá Fram og eitt hjá Val. Margrét og Sonja hafa spilað fjóra leiki til þessa, en Sandra María þrjá.
- 50 - Bríet Jóhannsdóttir spilaði sinn 50. leik í meistaraflokki í KSÍ-mótum og þar með einnig sinn 50. meistaraflokksleik fyrir Þór/KA.
- 60 - Sonja Björg Sigurðardóttir spilaði sinn 60. leik í meistaraflokki í KSÍ-mótum. Þar af eru 22 fyrir Þór/KA, 11 fyrir Hamrana og 27 fyrir Völsung. Sonja Björg hefur skorað fjögur mörk í fjórum leikjum Lengjubikarsins þetta árið.
- 90 - Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir spilaði sinn 90. leik í meistaraflokki í KSÍ-mótum. Þar af er 81 leikur fyrir Þór/KA og níu fyrir Hamrana.
- - -

Jessica Berlin spilaði seinni hálfleikinn í gær og hélt hreinu eins og Harpa Jóhannsdóttir í fyrri hálfleiknum. Þetta var hennar fyrsti leikur fyrir Þór/KA. Mynd: Ármann Hinrik Kolbeinsson.


Sonja Björg Sigurðardóttir fagnar marki í sínum 60. meistaraflokksleik. Mynd: Ármann Hinrik Kolbeinsson.

Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir spilaði sinn 90. meistaraflokksleik í gær. Mynd: Ármann Hinrik Kolbeinsson.

Hart barist í leiknum í gær. Hér fylgist Angela Mary Helgadóttir með átökum Huldu Óskar Jónsdóttur við Önnu Rakel Pétursdóttur og Fandísi Friðriksdóttur. Mynd: Ármann Hinrik Kolbeinsson.

Margrét Árnadóttir hefur skorað fjögur mörk í fjórum leikjum í Lengjubikarnum í vetur, og var mjög nærri því að skora mark í gær. Hér er hún ásamt landsliðskonunni Berglindi Rós Ágústsdóttur. Mynd: Ármann Hinrik Kolbeinsson.

Setið í netinu. Sandra María Jessen þurfti að spretta úr spori til að ná boltanum og renna honum í markið, í raun eftir sendingu frá sjálfri sér. Boltinn endaði í netinu og Sandra María líka, bara ekki sama netinu. Getur sú sem skorar mark mögulega fengið skráða stoðsendingu á sjálfa sig? Mynd: Ármann Hinrik Kolbeinsson.