Karfan er tóm.
Lokahóf Þórs/KA og Hamranna fór fram laugardagskvöldið 18. september. Hefðbundin dagskrá, bestu og efnilegustu leikmenn verðlaunaðir, auk annarra viðurkenninga.
Myndir af verðlaunahöfum og þeim sem fengu aðrar viðurkenningar má sjá í myndasafni.
Hjá Þór/KA þarf ekki að koma á óvart að Arna Sif Ásgrímsdóttir fyrirliði var valin besti leikmaðurinn - og hlaut reyndar einnig kosningu hjá liðsfélögunum sem leikmaður leikmannanna. Tvöföld verðlaun hjá Örnu Sif, auk þess sem gera má ráð fyrir (þó við höfum ekki athugað það sérstaklega) að hún sé í liði ársins hjá öllum fjölmiðlum sem fylgdust með Pepsi Max-deildinni í sumar.
Í ræðu á lokahófinu sagði hún meðal annars þegar hún ræddi um leikmannahópinn og hina efnilegu leikmenn sem liðið hefur innan sinna raða:
"Þetta er bara algjörlega einstakt. Það er svo frábært að vera partur af þessum hóp og fyrir mig sem svona... kalla mig gömlu konuna þó ég sé ekki orðin svo gömul, þegar svona margar nýjar eru að koma upp þá er svo yndislegt að vera partur af þessu og fá að taka þátt í þeirra fyrstu skrefum á þeirra meistaraflokksferli."
Efnilegasti leikmaður Þórs/KA þetta árið er Jakobína Hjörvarsdóttir. Jakobína er fædd 2004 og hefur nú þegar spilað 31 leik í meistaraflokki með Þór/KA (deild, bikar, meistarakeppni). Hún kom fyrst við sögu í meistaraflokki sumarið 2019 og spilaði þá sex leiki, síðan 11 leiki 2020 og 14 leiki á nýafstöðnu keppnistímabili. Jakobína missti hinsvegar af lokaleikjum liðsins vegna meiðsla.
Markahæst í liði Þórs/KA í sumar var Karen María Sigurgeirsdóttir (2001) en hún skoraði fimm mörk. Karen María var að ljúka sínu fimmta tímabili með meistaraflokki hjá Þór/KA, en hún hefur spilað 82 leiki með liðinu og skorað 15 mörk.
Hjá Hömrunum var það Margrét Mist Sigursteinsdóttir (2003) sem valin var besti leikmaðurinn, bæði af þjálfurum og liðsfélögum sem leikmaður leikmannanna. Margrét Mist var jafnframt markahæst í liði Hamranna með átta mörk. Margrét Mist hefur spilað 27 leiki með Hömrunum (2020 og 21) og einn leik með Þór/KA (2019).
Krista Dís Kristinsdóttir (2006) spilaði sína fyrstu meistaraflokksleiki á þessu tímabili, en hún skoraði þrjú mörk í 12 leikjum með Hömrunum.
Auk hefðbundinna verðlauna til leikmanna fengu nokkrir einstaklingar viðurkenningar og gjafir fyrir vel unnin störf í þágu félagsins, en það voru: Aðalheiður Rósa Jóhannesdóttir, Anna Catharina Gros, Anna Stefánsdóttir, Guðrún Una Jónsdóttir, Haraldur Ingólfsson og Ingibjörg Gyða Júlíusdóttir,
Harpa Jóhannsdóttir, markvörður Þórs/KA hlaut Kollubikarinn - sjá í annarri frétt.