Karfan er tóm.
Hér höldum við áfram að fara yfir árið og erum áfram í 3. flokki enda þrjú lið frá Þór/KA sem tóku þátt í Íslandsmótinu. Þór/KA átti tvö lið í keppni A-liða og hér skoðum við Þór/KA2 (A2) og árangur liðsins í lotum Íslandsmótsins.
Þór/KA 2 hóf keppni í C-riðli í lotu 1, sem spiluð var frá byrjun mars fram til loka apríl. Skemmst er frá því að segja að stelpurnar unnu C-riðilinn með glæsibrag, unnu sex leiki og töpuðu aðeins einum. Þar með færðist liðið upp í B-riðil í lotu 2.
Eðlilega var róðurinn þyngri þegar komið var í B-riðilinn, erfiðari andstæðingar og meiri áskoranir, en liðið hélt sér í B-riðlinum, endaði í 6. sæti af átta liðum og var tveimur stigum fyrir ofan fallsæti. Liðið vann tvo leiki og tapaði fimm í lotu 2.
Árangurinn í lotu 3 var mun betri og í raun frábær miðað við að vera lið A2 og spila við A-lið annarra félaga í flestum leikjunum í öllum þremur lotunum. Stelpurnar gerðu sér lítið fyrir og unnu B-riðilinn í lotu 3, unnu fimm leiki og töpuðu tveimur. Gaman að segja frá því að þetta er í annað skiptið á þremur árum sem lið A2 frá Þór/KA vinnur B-riðilinn í lotu 3 og liðið því eiginlega deildarmeistari eftir sumarið þó aðeins sé keppt um aðalverðlaunin í A-riðlinum, þ.e. Íslandsmeistaratitilinn. Lið A2 vann þannig tvo riðla af þremur sem liðið tók þátt í, fyrst C-riðilinn í lotu 1 og svo B-riðilinn í lotu 2.
Frábær árangur.
Þór/KA 2 fyrir sigurleik í C-riðli, lotu 1, gegn ÍBV í Boganum 30. apríl.
Þór/KA2 fyrir leik gegn HK í B-riðli, lotu 2, í Boganum 9. júní.
Samanlagt spilaði liðið 21 leik, vann 13 leiki og tapaði átta. Liðið skoraði samtals 75 mörk og fékk á sig 43. Alls komu 34 stelpur við sögu í leikjum liðsins í sumar, þar af sjö sem eru fæddar 2010 og því einnig gjaldgengar í 4. flokki, en koma inn í 3. flokkinn núna í haust. Marsibil Stefánsdóttir var markahæst í A2-liðinu, skoraði 12 mörk, og Sóley Eva Guðjónsdóttir skoraði 11.
Leikmenn sem spiluðu einn eða fleiri leiki fyrir A2-liðið. Ef smellt er á nafn leikmanns má sjá upplýsingar um viðkomandi í gagnagrunni KSÍ.
Þó hér sé minnst á markaskorun þýðir það auðvitað ekki að þær sem ekki skoruðu mark eða mörk skipti minna máli því fótboltaleikir snúast líka um það að koma í veg fyrir að andstæðingurinn skori mörk og byggja upp sóknir sem leiða að því að liðið skorar mörk.
Þjálfarar 3. flokks voru þau Pétur Heiðar Kristjánsson, Jóhann Hreiðarsosn, Hulda Björg Hannesdóttir, Margrét Árnadóttir, Alma Sól Valdimarsdóttir og Tanía Sól Hjartardóttir.