Árið í máli, myndum og tölum - 3. flokkur B

Við höldum áfram að tína saman talnafróðleik og upplýsingar um liðin okkar og árangur þeirra á árinu 2024. Nú er komið að 3. flokki og að mörgu að hyggja enda þrjú lið sem spiluðu undir merkjum Þórs/KA, einn Íslandsmeistaratitill og í heildina frábær árangur hjá öllum liðunum okkar undir styrkri stjórn félagsins og þjálfara þess. Tvö af liðunum okkar tóku þátt í keppni A-liða og Þór/KA2 því að kljást við A-lið annarra félaga, en þriðja liðið okkar keppti í Íslandsmóti B-liða.

Farið var yfir stöðu mála hjá liðunum okkar í 3. flokki hér á síðunni upp úr miðjum júlí þegar hlé var á keppni hjá liðunum í Íslandsmótinu - sjá hér. Hér verður farið yfir árið á svipuðum nótum. Við byrjum á B-liðinu. 

Íslandsmeistarar B-liða

Þór/KA vann Íslandsmeistaratitil B-liða í 3. flokki annað árið í röð og þriðja skiptið á fjórum árum, eins og fram hefur komið hér á síðunni. Hér verður því aðeins stutt upprifjun á því sem áður hefur komið fram. B-liðið spilaði tíu leiki í A-riðlinum og endaði þar í 2. sæti á eftir FH/ÍH. Bæði lið unnu níu leiki og töpuðu einum, en FH/ÍH var með hagstæðari markamun. Þessi tvö lið fóru í undanúrslit ásamt sigurvegurum úr B- og C-riðli, unnu bæði leiki sína í undanúrslitum og mættust því í úrslitaleiknum. Þar hafði Þór/KA betur, 3-1, í leik sem fram fór á Kaplakrikavelli 12. september.

B-liðið fyrir fyrsta leik liðsins í byrjun maí. Aftari röð frá vinstri: Ingibjörg Ósk Traustadóttir, Lilja Maren Jónsdóttir, Heiðbjört Kristín Ómarsdóttir, Anna Lovísa Arnarsdóttir, Linda Rós Jónsdóttir, Birta Dögg Smáradóttir, Ásdís Fríður Gautadóttir, Ingibjörg Lóa Sævarsdóttir og Diljá Blöndal Sigurðardóttir. 

Fremri röð frá vinstri: Katla Hjaltey Finnbogadóttir, Guðrún Lára Atladóttir, Birta Rán Víðisdóttir, Paolianny Mairym Aponte, Dagmar Eva Þorbjörnsdóttir, Rakel Eva Guðjónsdóttir, Þóra Margrét Guðmundsdóttir og Manda María Jóhannsdóttir. Selma Lárey Hermannsdóttir fyrir framan.

  • Liðið spilaði 12 leiki á Íslandsmótinu í sumar (riðill, undanúrslit og úrslitaleikur), vann 11 leiki og tapaði einum.
  • Markatala liðsins í riðlinum var 55-13 og samanlagt 61-16 að meðtöldum úrslitaleikjum.
  • 28 stelpur komu við sögu í leikjum liðsins í sumar, sjá lista í frétt um Íslandsmeistaratitilinn. Þar af voru fimm fæddar 2010 og þar með einnig gjaldgengar með 4. flokki hjá félögunum.
  • 16 stelpur skoruðu mark eða mörk í leikjum liðsins.
  • Diljá Blöndal Sigurðardóttir skoraði flest mörk fyrir liðið í sumar, samtals 11.
  • Diljá var einnig valin besti leikmaðurinn og Ingibjörgk Ósk Traustadóttir leikmaður leikmannanna á lokahófi flokksins í október.

Mörk liðsins í sumar

Þó hér sé minnst á markaskorun þýðir það auðvitað ekki að þær sem ekki skoruðu mark eða mörk skipti minna máli því fótboltaleikir snúast líka um það að koma í veg fyrir að andstæðingurinn skori mörk og byggja upp sóknir sem leiða að því að liðið skorar mörk.

Þjálfarar 3. flokks voru þau Pétur Heiðar Kristjánsson, Jóhann Hreiðarsosn, Hulda Björg Hannesdóttir, Margrét Árnadóttir, Alma Sól Valdimarsdóttir og Tanía Sól Hjartardóttir.