Karfan er tóm.
Angela Mary Helgadóttir (2006) er hluti af fjölmennum hópi ungra og efnilegra leikmanna sem koma úr yngri flokkum félaganna og hafa fengið tækifæri með meistaraflokki á undanförnum árum. Hún hefur nú undirritað nýjan samning við Þór/KA.
Hún kom fyrst við sögu í meistaraflokki vorið 2021 með Hömrunum í bikarkeppni og 2. deild og skrifaði undir sinn fyrsta samning við Þór/KA í apríl 2022. Hún á að baki 30 leiki og eitt mark í KSÍ-leikjum í meistaraflokki, þar af 12 leiki í efstu deild. Þá hefur hún spilað samtals 11 leiki með yngri landsliðum Íslands, U18, U17 og U16.
Angela Mary spilar sem miðvörður eða bakvörður. Meiðsli settu strik í reikninginn undanfarið ár, en hún kom þó við sögu í sex leikjum með meistaraflokki á árinu ásamt því að vera ein af lykilleikmönnum í liði Þórs/KA/Völsungs í 2. flokki sem vann Íslandsmeistaratitilinn með yfirburðum í ár.
Núverandi samningur hennar rennur út um áramótin, en hún hefur nú skrifað undir nýjan samning til tveggja ára við Þór/KA.
Stjórn Þórs/KA fagnar því að ungar og efnilegar knattspyrnukonur eins og Angela Mary, og fleiri úr okkar röðum, velji að æfa og spila knattspyrnu með uppeldisfélaginu.
Þór/KA er á meðal öflugustu félaga á landinu við framleiðslu leikmanna, ef svo má að orði komast, sem glöggt má sjá á þeim fjölda heimastúlkna sem skipað hafa leikmannahóp meistaraflokks undanfarin ár og þeim fjölda öflugra leikmanna sem koma frá Akureyri og spila með öðrum bestu liðum hér á landi og/eða hafa farið utan og reynt sig í atvinnumennskunni.