Aftur sigur gegn Keflavík

Markaskorarar dagsins, Kimberley Dóra og Margrét, að leik loknum.
Markaskorarar dagsins, Kimberley Dóra og Margrét, að leik loknum.

 

Þór/KA sigraði Keflavík, 3-0, í fyrstu umferð Lengjubikarsins í Boganum í dag. Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir skoraði tvö mörk og Margrét Árnadóttir eitt.

Fyrri hálfleikur var fremur bragðdaufur og lítið um færi, en Þór/KA þó með yfirhöndina, meira með boltann og nokkrum sinnum nálægt því að komast í góðar stöður. Markvörður Keflavíkur greip inn í þegar þurfti og markalaust var eftir fyrri hálfleikinn. Gestirnir náðu þó ekkert að ógna markinu hjá Þór/KA.

Meiri hraði í seinni hálfleik

Seinni hálfleikurinn var líflegri, hraðara spil hjá Þór/KA og það skilaði marki á 56. mínútu. Tiffany McCarty lék þá listir sínar inni í vítateig Keflvaíkur og var brotið á henni, dæmt víti. Margrét Árnadóttir skoraði úr vítinu.

Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir bætti við öðru markinu um 11 mínútum síðar, á 67. mínútu. Tiffany var þá með boltann hægra megin í teignum, renndi honum út á Margréti sem reyndi skot, boltinn fór af varnarmanni og datt fyrir Kimmy sem skoraði af stuttu færi.

Kimberley Dóra skoraði svo sitt annað mark á fyrstu mínútu uppbótartímans. Eftir innkast barst boltinn til Amalíu Árnadóttur, sem komið hafði inn á fyrir Ísfold Marý um sjö mínútum áður, Amalía renndi honumá Kimmy sem lék á varnarmann og renndi boltanum í netið.

Þriggja marka sigur staðreynd í fyrsta leik okkar í Lengjubikarnum. Ágætur leikur að mörgu leyti, liðið var vel skipulagt, spilað varnarleikinn vel og skapaði sér færi í seinni hálfleiknum sem skiluðu þrem mörkum. Harpa þurfti lítið að reyna á sig í markinu, að öðru leyti en því að taka við sendingum frá samherjum og koma boltanum í leik.

Þrjár með fyrsta KSÍ-leikinn fyrir Þór/KA

Eftir að hafa tekið þátt í Kjarnafæðismótinu og Faxaflóamótinu er staðan aðeins öðruvísi þegar Lengjubikarinn hefst. Mótið er á vegum KSÍ og því strangari reglur um hlutgengi leikmanna.

Félagaskipti leikmanna sem koma frá liðum erlendis eru ekki leyfð fyrr en 17. febrúar og því gátu hvorki Andrea Mist Pálsdóttir né Brooke Lampe tekið þátt í leiknum í dag. Það gaf kornungum leikmönnum tækifæri til að sýna sig. Iðunn Rán Gunnarsdóttir kom inn í varnarlínuna og Kimberley Dóra á miðjuna. Báðar skiluðu sínu afbragðs vel í leiknum, eins og reyndar allir leikmenn liðsins.

Leikurinn í dag var jafnframt fyrsti KSÍ-leikur þriggja leikmanna, en það eru Unnur Stefánsdóttir, sem kom til okkar frá Grindavík, og þær Tiffany McCarty og Vigdís Edda Friðriksdóttir, sem báðar komu til okkar frá Breiðabliki.

Leikskýrslan á vef KSÍ.

Staðan í mótinu og leikjadagskráin.

Næsti leikur liðsins verður eftir tvær vikur, gegn Aftureldingu í Mosfellsbænum sunnudaginn 27. febrúar kl. 15.