Karfan er tóm.
Hér er mættur þriðji pistillinn í ritröðinni „Á trúnó frá Tene“, að mestu ritaður í flugvélinni á leiðinni heim. Mögulega verður svo ritaður eftirmáli, en sögulok eru óviss og ekki búið að hnýta alla lausa enda þegar við lendum á Akureyri. Já, aftur, geggjað að lenda á Akureyri og þurfa bara um sjö mínútna akstur til að komast heim.
Með góðu skipulagi í svona æfingaferðum er hægt að ná bæði frábærum æfingum og öllu því út úr ferðinni sem þjálfarar og leikmenn óska, en um leið að gera ferðina að fríi og þétta hópinn með ýmsum hætti, til dæmis að nýta saman einhverja af þeim fjölmörgu afþreygingarmöguleikum sem eyjan býður upp á, nú eða bara fara hafa það gott á laugarbakkanum, fara saman á ströndina til að liggja og leika, strauja verslunarmiðstöðvarnar og njóta góðra veitinga. Þannig varð æfingaferðin ekki bara púl og puð, sviti og átök, heldur einnig frábært frí, afslöppun eftir erfiða vortörn í fótboltanum og skemmtileg samvera. Sögur herma líka að við höfum ekki bara skemmt sjálfum okkur heldur einnig öðrum gestum á hótelinu þegar nokkrar úr hópnum voru farnar að dansa við Grease-lög á laugarbakkanum og sólsteiktir gestir frá ýmsum löndum farnir að klappa með.
Skylduverkin verða einfaldlega skemmtilegri þegar við munum eftir því að gera þau skemmtileg og gera eitthvað skemmtilegt í bland við að æfa og bæta okkur fyrir átökin sem fram undan eru í ágúst og september.
Við hefðum getað æft tvisvar á dag og keyrt okkur út, en það er auðvitað óþarfi. Frábærar og vel undirbúnar tveggja tíma æfingar frá 9:30 til 11:30 skiluðu sínu og svo var bara það sem eftir var af deginum frjálst. Fararstjórar og þjálfarar þurftu engar áhyggjur að hafa af því að stelpurnar rötuðu í vandræði eða vitleysu enda er þessi 27 manna hópur leikmanna sem fóru í ferðina alveg einstaklega vel saman settur, samheldinn og bara frábær í alla staði. Orðið dramatík var held ég aldrei notað í ferðinni, ekkert vesen og engin agabrot. Reglurnar voru heldur ekki margar enda betra að hafa fáar reglur, fylgja þeim og sýna stelpunum það traust sem þær eiga skilið.
Það er eiginlega erfitt að lýsa því með orðum hve auðvelt það hefur verið að halda utan um þennan hóp enda hefur mér oft verið hugsað til þess hvernig ég sjálfur var á þeirra aldri. Leikmenn í þessum hópi eru reyndar alveg frá því að vera 15 ára upp í rúmlega þrítugt. Undirritaður var með tilbúna pappíra undirritaða af foreldrum tíu stelpna í hópnum sem ekki eru (eða voru) orðnar 18 ára því þær þurfa leyfi til að fá að ferðast án foreldranna. Þessa pappíra þurfti reyndar aldrei að draga upp í ferðinni. Þessir meistarar eru líka svo miklu þroskaðri og heilsteyptari en ég sjálfur var á þeirra aldri. Ég hefði ekki viljað vera fararstjóri í ferð með sjálfum mér þegar ég var 15-20 ára.
Þriðja afmælið í hópnum bar upp á mánudaginn, en þá varð Jakobína Hjörvarsdóttir 18 ára, sem sagt fullorðin (staðfest). Stelpurnar notuðu tækifærið þegar nánast allur hópurinn var á íslenska barnum að horfa á stelpurnar okkar kljást við þær frönsku og færðu henni afmæliskökur og sungu. Staðan í leiknum okkar og leik Belgíu og Ítalíu virtist þó aðeins draga úr stemningunni.
Upp komu smávægileg vandræði með vegabréf og þurfti undirritaður að heimsækja lögreglustöð ásamt einum leikmanni. Við fórum upp úr hádegi á mánudeginum, sem var kannski ekki góður tími því hraðbrautin var pökkuð og google-maps sagði okkur að fljótlegra væri að fara leið til hliðar við hana. Allt í góðu með það. Þegar við komum á lögreglustöðina byrjaði ég á því að keyra inn á bílastæði lögreglubílanna en var snarlega bent á að fara annað. Almenningsstæði aðeins fyrir ofan, að vísu hræðilega holóttur malarkambur, en við lifðum það af.
Leiðbeiningar um hvað skuli gera í slíkum tilvikum voru þó ekki alveg nákvæmar. Við lásum það einhvers staðar að við þyrftum að fara á lögreglustöðina og gefa skýrslu, hafa síðan afrit af skýrslunni með okkur í innritun við brottför. En þegar við mættum á stöðina var okkur sagt að við þyrftum að hringja inn og gefa skýrslu og koma svo daginn eftir til að undirrita og fá afrit af skýrslunni. Lögreglustöðin var reyndar ekki langt í burtu, alveg við hraðbrautina, líklega um 10-15 mínútna akstur frá hótelinu, þannig að þetta kom ekki að sök – fórum bara aðeins fyrr í morgunmat á þriðjudeginum og brunuðum aftur á stöðina.
Spænsku lögreglumennirnir sem við hittum á voru einstaklega kurteisir og málið var afgreitt fumlaust. Náðum meira að segja að spjalla um fótbolta við þá, en Tenerife er með kvenna- og karlalið í næstefstu deild Spánar, að ég held. Annar lögreglumannanna sagðist vera frá Gran Canaria og liðið hans væri Las Palmas. Kvöldið áður hafði Jónsi einmitt rifjað upp (það sem ég átti að vita, en hélt að Las Palmas væri á Mallorca) að Þórður Guðjónsson spilaði með liðinu fyrir allnokkru. Las Palmas er semsagt á Gran Canaria og þegar lögreglumaðurinn heyrði „Guðjónsson“ kom strax spurning um það hvort það væri sama og Guðjohnsen. Hann kíkti á google og komst að því að það eru um 20 ár síðan Þórður spilaði með Las Palmas. Þetta var útúrdúr. Skýrslan var undirrituð og við fengum afrit. Kvöddum þessa ljúfu menn og héldum aftur heim á hótel og vorum svo bara klár í morgunæfinguna kl. 9:30.
Eins og fram hefur komið einhvers staðar í þessum skrifum mínum var ákveðið með stuttum fyrirvara að fara til Tenerife í stað þess að fara til Englands. Fyrir Englandsferðina höfðu verið skipulagðir tveir æfingaleikir við þarlend lið, en ólíklegt að við hefðum getað náð að fá leik eða leiki við heimalið á Tenerif á þessum tíma árs. Í staðinn var settur upp innbyrðis æfingaleikur og skipt í lið á þriðjudagsæfingunni.
Já, og úr því ég minnist á England. Það var í fyrstu örlítið áhyggjuefni hjá okkur að hitinn á Tenerife myndi gera okkur erfitt fyrir við æfingar, en þegar upp er staðið var líklega um 5-10 gráðum heitara á Englandi en þarna við vesturströnd Afríku.
Þær sem ekki voru meiddar eða með hælsæri eða annað luku þriðjudagsæfingunni með þessum leik, 11 á móti 11, sem endaði 1-1 að mig minnir og síðan í vítakeppni. Textalýsing á vítakeppni er ekki skemmtileg og því verður útlistun á henni að bíða betri tíma – auðvitað tekin upp og verður hluti af myndbandi úr ferðinni þegar tími gefst til.
Þetta er ritað í flugvélinni á leiðinni heim. Lokaæfingin í ferðinni var tekin í morgun milli 9 og 10 og skipt í þrjú lið og farið í Brassa, þar sem karlarnir fjórir voru í einu liðinu og Jónsi valdi nokkrar þær yngstu með í okkar lið. Með okkur sem dragbíta áttu þær litla von um að vinna þessa keppni. Formið á körlunum var misgott, en það verður þó að hrósa einum sérstaklega. Hannes Bjarni sjúkraþjálfari er í fantaformi og ekki bara það heldur líka góður í fótbolta. Hann er þó enn betri í sínu fagi, sjúkraþjálfuninni, og ég veit ekki betur en að hann sé hreinlega elskaður innan hópsins.
Aftur að Brassanum á lokadeginum. Nýju skórnir og gömlu hanskarnir gerðu ekki mikið gagn í viðureign við þær frísku stelpur sem við spiluðum á móti í leikjum dagsins. Einhver smá tilþrif glöddu þó augað og jákvæðni liðsfélaganna gagnvart mistökum bjargaði deginum. Ég ætla þó að enda þetta með því að segja að þessi keppni var ekki mynduð og því fór hún aldrei fram. Í keppni sem aldrei fór fram er enginn sigurvegari og enginn sem tapaði.
Samt erum við öll sigurvegarar því við tilheyrum þessum magnaða hópi sem kallar sig Þór/KA. Næsta verkefni er að koma þeim krafti, samheldni og samstöðu sem ríkt hefur í hópnum og varð enn sterkari á þessari viku á Tenerife inn í það sem við gerum í framhaldinu og sýna það í leikjum okkar sem eftir eru í sumar og haust. Átta leikir í Bestu deildinni og þó það sé kannski klisja þá tökum við einn í einu og stefnum ávallt að sigri. Þannig hefur það alltaf verið og verður alltaf hjá Þór/KA, en eins og við vitum færðu ekki alltaf allt sem þig langar í. Fyrir því eru margar ástæður, en svona æfingaferð og sú vinna sem hópurinn allur leggur á sig er liður í því að fækka þeim ástæðum og auka líkurnar á að erfiðið skili sér í fleiri sigrum og stigum.
Svo það sé sagt einu sinni enn: Einfaldlega geggjað að fljúga beint til Akureyrar og eiga þá eftir um sjö mínútna akstur til að komast heim. Einhverjir hnökrar virðast þó vera til staðar sem næsarar eiga eftir að laga. Eftir innritun og þegar allir farþegar voru komnir um borð leið hátt í klukkutími þar til vélin fór í loftið, að sögn flugstjóra var það vegna töskuvandræða, og þó svo ég hafi verið sofandi – náði að vinna upp talsvert svefntap fyrir flugtak – þá sáu nokkur úr hópnum út um glugga vélarinnar að vagn með um 10-12 töskum varð eftir á hlaðinu þegar vélin fór af stað, þar á meðal var klárlega ein taska merkt Þór/KA og mjög líklega töskur í eigu einhverra leikmanna. Örlítið svekkjandi endir á ferð sem var annars algjörlega meiriháttar og algjörlega hverrar krónu (og hverrar fjáröflunar) virði. Þegar þetta er skrifað um borð veit ég ekki enn hvort mín taska varð eftir. Áhugavert verkefni við heimkomuna þar sem í töskunni eru bæði bíllyklar og húslyklar, lyklar að Hamri og alls konar.
Og svona í lokin, af því að ég minntist aftur á fjáröflun þá ætla ég að biðja einn harðfiskkaupanda afsökunar hér og nú. Ég hafði óvart selt sama harðfiskinn tvisvar. Þessi kaupandi býr erlendis og lét vita að hann yrði á landinu í júlí, en svo einmitt þegar hann kom til landsins hafði ég ekki komið því í verk að panta viðbótarbirgðir til að hann fengi sitt.
Og alveg í lokin langar mig að enda þetta með textabroti eftir Mark Knopfler og Dire Straits, úr laginu Why Worry?
Baby, I see the world has made you sad
Some people can be bad
The things they do, the things they say
But baby, I‘ll wipe away those bitter tears
I‘ll chase away those restless fears
And turn your blue skies into grey
Why worry, there should be laughter after pain
There should be sunshine after rain
These things have always been the same
So why worry now?
Why worry no?
Baby, when I get down I turn to you
And you make sense of what I do
You know, it isn‘t hard to say
But baby, just when this world seems mean and cold
Our love comes shining red and gold
And all the rest is by the way
Why worry, there should be laughter after pain
There should be sunshine after rain
These things have always been the same
So why worry now?
Why worry no?
Já, hér kemur eftirmálinn sem ýjað var að í upphafi. Fregnir herma að vélin hafi verið orðin of þung og var heill vagn af töskum skilinn eftir á flugvellinum. Það var staðfest með mynd sem einhver tók út um gluggann og deildi á spjallinu okkar. Þegar lent var á Akureyri kom í ljós að þar á meðal var taska eins leikmanns og tvær af liðstöskum okkar með sjúkratöskum og varningi, recovery boots, nuddbyssum og sjö boltum, svo eitthvað sé nefnt. Söguritari varð einnig fyrir því að taskan hans varð eftir – sem er eiginlega rökrétt því hann var síðastur allra í hópnum til að innrita sig (foringinn í úlfahjörðinni er alltaf aftastur til að tryggja öryggi allra). Til að toppa allt var bæði bíllykill og húslykill í þeirri tösku og þegar einbúar koma heim til sín er enginn sem opnar fyrir þeim nema þeir sjálfir. Bíllinn er því enn inni á flugvelli og lausnin á húsnæðisvandanum var einföld. Hamar er mitt annað heimili og Jónsi þjálfari lánaði mér bæði bílinn sinn og lykil að Hamri (minn er með húslyklinum í töskunni á Tene) og þar hef ég gott næði til að setjast niður og vinna upp verkefni sem ég trassaði í sólinni… og kannski setja í eina þvottavél eða tvær í leiðinni.
Þegar ég setti bílinn hans Jónsa í gang fyrir utan heima hjá honum til að fara í Hamar var það fyrsta sem heyrðist í útvarpinu: „And it's gonna be a long, long time...“
Vonandi verður ekki mjög löng bið eftir töskunum. Næsarar segja að Play hafi samþykkt að taka þær með í flugi frá Tene til Keflavíkur á morgun - vélin sem Perry, Inga og strákarnir verða í - og svo eiga þær að komast norður á föstudagsmorguninn. Sjáum hvað setur.
Gleðin og þakklætið fyrir að tilheyra þessum magnaða hópi yfirgnæfa svekkelsið yfir að vanta bíllyklana, húslyklana, snyrtidót, hlaupaskó, föt (þar á meðal rokkbuxurnar) og fleira. En hrukkukremið sem ég keypti á Tenerife var í töskunni sem kom. Þið getið huggað ykkur við það.
Þúsund þakkir til allra sem voru með í þessari ferð. Einfaldlega geggjaður hópur og geggjuð vika saman í sólinni. Nú þurfum við að láta það telja í framhaldinu.
-HI
Þessi vagn keyrir sig ekki sjálfur frá Tene til Akureyrar, það er ljóst.
Töskulausa fólkið tekur stöðunni af æðruleysi.