Karfan er tóm.
Þór/KA á núna fjórða árið í röð lið í úrslitaleik Íslandsmóts B-liða í 3. flokki. Að þessu sinni mætir okkar lið Hafnfirðingum í FH/ÍH og fer leikurinn fram á Kaplakrikavelli í Hafnarfirði sunnudaginn 22. september og hefst kl. 11.
Þór/KA og FH/ÍH voru saman í A-riðli Íslandsmóts B-liða. Bæði unnu níu leiki og töpuðu einum. Tapleikirnir komu í innbyrðis viðureignum liðanna, en leikir þeirra unnust báðir á útivelli. Þór/KA vann leikinn í Kaplakrika 4-2 í byrjun júní þar sem Birta Rún Víðisdóttir og Sóley Eva Guðjónsdóttir skoruðu tvö mörk hvor. FH/ÍH kom svo norður í lok ágúst og vann 3-0 sigur í Boganum.
Litlu munaði því á liðunum í A-riðlinum, bæði með 27 stig úr tíu leikjum og markatalan mjög svipuð nema hvað markatala FH/ÍH var þremur mörkum betri. Þór/KA skoraði 55 mörk og fékk á sig 13.
Tvö efstu lið í A-riðlinum fóru í undanúrslit ásamt sigurliðunum í B- og C-riðlinum, sem voru Selfoss og Víkingur. Þór/KA vann Víking á útivelli, 4-2, þar sem Halldóra Ósk Gunnlaugsdóttir Briem, Ísafold Gná Ólafsdóttir, Sigyn Elmarsdóttir og Þóra Margrét Guðmundsdóttir skoruðu mörkin. FH/ÍH vann Selfoss 3-1.
Það verða því Þór/KA og FH/ÍH sem mætast í úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitil B-liða.