Karfan er tóm.
Þór/KA mætti FH/ÍH í úrslitaleik Íslandsmóts B-liða í 3. flokki í gær, en stelpurnar okkar urðu að játa sig sigraðar.
Eins og áður hefur verið sagt frá hér á síðunni voru þessi lið saman í A-riðli Íslandsmóts B-liða og vann FH/ÍH alla leiki sína í riðlinum. Þór/KA varð í 2. sæti með 25 stig úr 12 leikjum og fór því í úrslitakeppni ásamt FH/ÍH, Stjörnunni/Álftanesi og Snæfellsnesi, en tvö síðasttöldu liðin urðu í tveimur efstu sætum B-riðils. Þór/KA og FH/ÍH unnu sína leiki í undanúrslitum og mættust í úrslitaleik á KA-vellinum í gær. Þar höfðu gestinir sigur með tveimur mörkum gegn engu.
Okkar stelpur unnu því til silfurverðlauna á Íslandsmóti B-liða þetta árið, sem er mjög góður árangur og óskum við þeim til hamingju með silfrið. Þess má í leiðinni geta að Þór/KA teflir fram tveimur liðum í keppni A-liða og einu í keppni B-liða þetta árið.
Þjálfarar 3. flokks eru þau Ágústa Kristinsdóttir, Birkir Hermann Björgvinsson og Pétur Heiðar Kristjánsson.