Karfan er tóm.
Stelpurnar okkar í 3. flokki í Þór/KA/Hömrunum spiluðu lokaleiki sína í deildakeppni Íslandsmótsins í gær. A-liðið endar í 3. sæti A-deildar, en B-liðið vann sinn riðil í keppni B-liða og er komið áfram í fjögurra liða úrslitakeppni.
Mótherjar gærdagsins voru Breiðablik/Augnablik. Leikur A-liðanna endaði með 2-4 sigri gestanna (leikskýrsla á ksi.is). Angela Mary Helgadóttir og Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir skoruðu mörkin fyrir Þór/KA/Hamrana. A-liðið endar keppnistímabilið í 3. sæti A-deildar, á eftir Val/KH og Breiðabliki/Augnabliki (sjá mótið á ksi.is). Liðið vann sjö leiki, gerði þrjú jafntefli og tapaði fjórum.
A-liðið hefur því lokið keppni þetta sumarið, en stelpurnar komust í undanúrslit í bikarkeppninni og unnu Rey Cup annað árið í röð.
B-liðið tryggði sér í gær sigur í A-riðli í keppni B-liða með 6-0 sigri á Breiðabliki/Augnabliki (leikskýrsla á ksi.is). Bríet Jóhannsdóttir og Heiðrún Hafdal Björgvinsdóttir skoruðu tvö mörk hvor og þær Emelía Ósk Kruger og Emilía Björk Óladóttir eitt hvor.
Með sigrinum tryggðu stelpurnar sér fyrsta sæti í A-riðli, enda með 25 stig, eins og Valur/KH, en með fimm mörkum hagstæðari markamun (sjá mótið á ksi.is). Bæði liðin fara í úrslitakeppni ásamt tveimur efstu liðum úr B-riðli, sem eru HK og Víkingur. Þór/KA/Hamrarnir mæta liði Víkings, sem endaði í 2. sæti B-riðils.
Liðið vann átta leiki, gerði eitt jafntefli og tapaði einum.
Samkvæmt drögum að niðurröðun munu Þór/KA/Hamrarnir og Víkingar mætast mánudaginn 13. september, en ekki ákveðið á hvaða leikvelli. Úrslitaleikur B-liðanna er svo áætlaður föstudaginn 17. september. Sigurvegarinn í leik okkar gegn Víkingum mætir þá annað hvort Val/KH eða HK.
B-liðið hefur því enn tækifæri til að landa titli þetta sumarið, en stelpurnar unnu til silfurverðlauna á Rey Cup í júlí.