2. flokkur U20: Gull og silfur í sumar!

Verðlaunahafar á lokahófi 2. flokks U20. Ólína Helga Sigþórsdóttir, Emelía Ósk Krüger, Iðunn Rán Gun…
Verðlaunahafar á lokahófi 2. flokks U20. Ólína Helga Sigþórsdóttir, Emelía Ósk Krüger, Iðunn Rán Gunnarsdóttir og Rut Marín Róbertsdóttir.

Liðin okkar í 2. flokki U20 náðu frábærum árangri á árinu. Annað liðið vann A-deildina og varð Íslandsmeistari, hitt liðið fór í úrslitaleik B-deildarinnar.

Það hefur hins vegar orðið út undan hér á heimasíðunni að fara yfir sumarið í heild hjá þessum liðum og kynna verðlaunahafa sem valdir voru á lokahófi í byrjun nóvember. Nú skal bætt úr því. Eins og áður er rétt að ítreka að þó síðar í fréttinni sé farið yfir hverjar skoruðu mest og hve margar skoruðu mörk þá segir slík tölfræði að sjálfsögðu ekki  nema hluta sögunnar því það eru fleiri þættir leiksins en markaskorun sem skapa sigra og árangur. Tölfræðin er fróðleikur og til gamans gerð.

Stelpurnar kusu sjálfar besta leikmann og leikmann leikmannanna úr hvoru liði fyrir sig.

  • Þór/KA/Völsungur A-deild - besti leikmaður: Emelía Ósk Krüger
  • Þór/KA/Völsungur A-deild - leikmaður leikmannanna: Iðunn Rán Gunnarsdóttir
  • Þór/KA/Völsungur B-deild - besti leikmaður: Ólína Helga Sigþórsdóttir
  • Þór/KA/Völsungur B-deild - leikmaður leikmannanna: Rut Marín Róbertsdóttir

Félagið sendi tvö lið til keppni í Íslandsmótinu í 2. flokki U20 undir nafni Þórs/KA/Völsungs. Annað liðið spilaði í A-deild og bikarkeppninni, en hitt í B-deild. Alls komu 49 knattspyrnukonur við sögu í leikjum liðanna í A-deild, B-deild og bikarkeppninni, þar af 15 fæddar 2007-2010 og því einnig gjaldgengar með 3. Þórs/KA eða 4. flokki félaganna.

Silfur í B-deildinni

Í B-deildinni voru 14 lið skráð til keppni og var þeim skipt í tvo riðla. Þór/KA/Völsungur var í B-riðli og því miður dró eitt lið, Víkingur, úr keppni í okkar riðli. Áður en það gerðist höfðu stelpurnar okkar unnið 9-3 sigur á Víkingsliðinu á útivelli. Liðið spilaði tíu leiki í riðlinum, auk leiksins. Af þessum tíu leikjum sem giltu í mótinu vann liðið sex leiki og gerði eitt jafntefli.

Liðið endaði í 2. sæti riðilsins með 19 stig, en Grótta/KR vann riðilinn, hlaut 24 stig. Í undanúrslitum mættu stelpurnar liði Tindastóls/KHF á Sauðárkróksvelli 23. september, en Tindastóll/KHF hafði unnið riðil 1 með nokkrum yfirburðum. Þór/KA-stelpurnar létu það ekki stöðva sig og unnu 5-3. Í þeim leik skoraði Bríet Fjóla Bjarnadóttir þrennu á fyrstu 24 mínútum leiksins. Tanía Sól Hjartardóttir bætti við fjórða markinu fyrir leikhlé og Ólína Helga Sigþórsdóttir því fimmta í síðari hálfleiknum. Úrslitaleikurinn fór ekki alveg eins vel, en þar mættu stelpurnar liði Gróttu/KR á útivelli og máttu þola 5-1 tap

Í leikjum liðsins í riðlinum, að meðtöldum leiknum gegn Víkingi, og í leikjunum í úrslitakeppninni skoruðu alls 17 leikmenn mark eða mörk fyrir liðið. Ólína Helga Sigþórsdóttir og Bríet Fjóla Bjarnadóttir voru markahæstar með sex mörk. Ólína Helga skoraði öll sín mörk í riðlinum, en Bríet skoraði tvö mörk í riðlinum og fjögur mörk í úrslitakeppni B-deildar, þrjú í undanúrslitaleiknum og eitt í úrslitaleiknum. Næstar komu Eva S. Dolina-Sokolowska og Rut Marín Róbertsdóttir með fjögur mörk hvor. Áhugaverður punktur í þessu sambandi er að tvær af þessum fjórum sem skoruðu flest mörkin voru gjaldgengar með 3. og 4. flokki í sumar, Eva fædd 2008 og Bríet Fjóla fædd 2010. 

Liðið spilaði 13 leiki, vann sjö, gerði eitt jafntefli og tapaði fjórum. Markatalan var 43-31 eftir sumarið. Við teljum leikinn gegn Víkingi með í þessum tölum. 

Alls komu 42 knattspyrnukonur við sögu í leikjum liðsins í sumar, þar af 12 sem voru gjaldgengar með 3. eða 4. flokki. 

Íslandsmeistarar með yfirburðum

Liðið okkar í 2. flokki A-deild vann Íslandsmeistaratitilinn með yfirburðum. Keppni í A-deildinni gekk þó ekki snurðulaust fyrir sig, mikið um frestanir leikja. Á endanum dró ÍBV sitt lið úr keppni.  Þór/KA/Völsungur tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn með 6-1 sigri á HK þann 26. ágúst, spilaði síðan útileik 3. september en síðan dróst lokaleikurinn um margar vikur og var ekki spilaður fyrr en 14. október. Tveir síðustu leikirnir voru gegn Breiðabliki/Augnabliki og unnu okkar stelpur báða leikina með miklum mun. Þór/KA/Völsungur hafði þá mætt þeim á heimavelli og unnið 8-0, en seinni leikurinn var aldrei spilaður. Það voru því miður aðeins sjö lið skráð til leiks og því sex sem luku keppni í A-deildinni. Þór/KA/Völsungur vann alla leiki sína í deildinni, samtals tíu auk leiksins gegn ÍBV.


Að loknum sigri í lokaleik A-deildar. Hér eru 24 af 37 leikmönnum sem komu við sögu í leikjum liðsins í A-deildinni. Aftari röð frá vinstri: Pétur Heiðar Kristjánsson þjálfari, Harpa Jóhannsdóttir, Emelía Ósk Krüger, Bríet Jóhannsdóttir, Lilja Gull Ólafsdóttir, Rut Marín Róbertsdóttir, Hanna Klara Birgisdóttir, Amalía Árnadóttir, Ólína Helga Sigþórsdóttir, Tanía Sól Hjartardóttir, Sonja Björg Sigurðardóttir, Ísfold Marý Sigtryggsdóttir, Anna Guðný Sveinsdóttir, Angela Mary Helgadóttir og Ágústa Kristiinsdóttir þjálfari. Fremri röð frá vinstri: Birkir Hermann Björgvinsson þjálfari, Katla Bjarnadóttir, Bríet Fjóla Bjarnadóttir, Helga Dís Hafsteinsdóttir, Hildur Anna Birgisdóttir, Iðunn Rán Gunnarsdóttir fyrirliði, Kolfinna Eik Elínardóttir, Krista Dís Kristinsdóttir, Una Móeiður Hlynsdóttir, Arna Rut Orradóttir, Júlía Margrét Sveinsdóttir og Steingerður Snorradóttir. 
- - -

Þór/KA/Völsungur átti fjórar af þeim fimm sem skoruðu mest í A-deildinni. Emelía Ósk Krüger var þar á toppnum með 13 mörk. Krista Dís Kristinsdóttir og Una Móeiður Hlynsdóttir komu næstar með tíu mörk hvor og Bríet Jóhannsdóttir með níu. Alls komu 37 knattspyrnukonur við sögu í leikjum liðsins í A-deildinni í sumar. Þar af voru þrjár eldri, þrjár fæddar 2004, fimm fæddar 2005, 14 fæddar 2006. Af þessum 37 voru 12 enn gjaldgengar í 3. eða 4. flokki, fæddar 2007-2010. 

Í bikarkeppninni fór liðið alla leið í úrslitaleikinn, en tapaði honum. Áður hafði liðið unnið Tindastól/KHF, Fylki og Stjörnuna/Álftanes, en beið lægri hlut gegn FH/ÍH í úrslitaleiknum. 

Í heildina spilaði Þór/KA/Völsungur 15 leiki í A-deild og bikarkeppni, vann 14 og tapaði einum. Markatalan eftir sumarið var 80-12 í A-deildinni (8-0 leikur gegn ÍBV talinn með) og 15-4 í bikarkeppninni, samtals 95 mörk skoruð og 16 mörk sem liðið fékk á sig. Alls skoruðu 19 leikmenn mörk í leikjum liðsins í sumar. 


Á lokahófi í haust.