2. fl. U20: Bikarmeistarar eftir sigur á Selfyssingum

Íslands- og bikarmeistarar í 2. flokki U20, Þór/KA/Völsungur/Tindastóll/Hvöt/Kormákur. Sjá nafnalist…
Íslands- og bikarmeistarar í 2. flokki U20, Þór/KA/Völsungur/Tindastóll/Hvöt/Kormákur. Sjá nafnalista með mynd inni í fréttinni.
- - -

Þór/KA/Völsungur/THK varð í dag bikarmeistari í 2. flokki U20 þegar liðið sigraði Selfyssinga 4-1 á Greifavellinum. Tvöfaldir meistarar í ár, Íslands- og bikarmeistaratitlar í höfn.

Úrslitaleikur Þórs/KA/Völsungs/THK og Selfoss fór fram í svölu en stilltu veðri á Greifavellinun síðdegis í dag. Þór/KA hafði unnið HK, FHL og FH/ÍH á leið í úrslitaleikinn, en Selfyssingar unnu Val/KH, ÍBV og ÍA.

Ágætlega var mætt á leikinn, um 90 manns í stúkunni. Leikurinn fór þó fram við fremur óvenjulegar aðstæður því á sama tíma var í gangi handboltamót í KA-heimilinu og búningsklefar því af skornum skammti. Það var leyst með því að liðin fengu búningsklefa í Þórsheimilinu, klæddu sig þar og mættu til leiks á Greifavellinum í upphitun. Leikhléið var því jafnframt óvenjulegt þar sem okkar stelpur sátu dúðaðar í Kolluteppin góðu á varamannabekknum undir ræðum þjálfaranna. Selfyssingar mættu norður á rútu og nýttu hana á bílastæðinu við Lundaskóla í leikhléinu. Mögulega í fyrsta skipti sem lið gengur til rútu í leikhléinu.


Bikarmeistarar í 2. flokki U20. Aftari röð frá vinstri: Pétur Heiðar Kristjánsson þjálfari, Ólína Helga Sigþórsdóttir, Bríet Fjóla Bjarnadóttir, Emelía Blöndal Ásgeirsdóttir, Eva S. Dolina-Sokolowska, Ragnheiður Sara Steindórsdóttir, Karen Hulda Hrafnsdóttir, Kolfinna Eik Elínardóttir, Dagbjört Rós Hrafnsdóttir, Amalía Árnadóttir, Harpa Jóhannsdóttir, Nína Rut Arnardóttir, Krista Dís Kristinsdóttir, Jóhann Hreiðarsson þjálfari, Katla Bjarnadóttir, Bríet Jóhannsdóttir og Margrét Árnadóttir þjálfari.

Fremri röð frá vinstri: Júlía Karen Magnúsdóttir, Aníta Ingvarsdóttir, Rut Marín Róbertsdóttir, Anna Guðný Sveinsdóttir, Tinna Sverrisdóttir, Sonja Björg Sigurðardóttir, Emelía Ósk Krüger fyrirliði, Angela Mary Helgadóttir, Hildur Anna Birgisdóttir, Arna Rut Orradóttir og Júlía Margrét Sveinsdóttir.

- - -

Fyrsta markið kom á 23. mínútu þegar Emelía Ósk Krüger varð á undan markmanni Selfyssinga að ná til boltans á vítateigslínunni og lyfti honum yfir markmanninn og í markið. Þór/KA sótti meira og fékk ágætis færi í fyrri hálfleiknum, en það voru gestirnir sem skoruðu næsta mark. Embla Katrín Oddsteinsdóttir jafnaði þá með fallegu skoti frá hægri, yfir markvörðinn og í hliðarnetið fær. Jafnt eftir fyrri hálfleikinn.

Stelpunum gekk betur að nýta færin í seinni hálfleiknum og bættu þá við þremur mörkum. Fyrst var það Karen Hulda Hrafnsdóttir sem skoraði eftir um tíu mínútna leik í seinni hálfleiknum og ekki mikið löngu seinna bætti Angela Mary Helgadóttir við þriðja markinu eftir hornspyrnu. Selfyssingar fengu þó sín færi áfram í seinni hálfleiknum, en ýmist var það Harpa í marki Þórs/KA sem kom í veg fyrir mark eða þá að leikmenn hittu ekki á rammann þegar færin gáfust. Það var svo yngsti leikmaður liðsins, Bríet Fjóla Bjarnadóttir, sem kláraði dæmið endanlega með marki þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Báðum liðum tókst reyndar að skora meira í seinni hálfleiknum, en eitt mark dæmt af hvoru liði vegna rangstöðu eða leikbrots.

Niðurstaðan sanngjarn sigur, 4-1, og bikarinn fór á loft. Þór/KA/Völsungur/THK þar með tvöfaldir meistarar í 2. flokki U20. Þjálfarar liðsins eru Pétur Heiðar Krisjánsson, Jóhann Hreiðarsson og Margrét Árnadóttir, ásamt því að fleiri úr þjálfarateymi félagsins hafa komið við sögu hjá liðinu í sumar. 

Þór/KA/Völ/THK - Selfoss 4-1 (1-1)

Molar og fróðleikur

  • 1 - Aldursbilið fyrir 2. flokk miðast við þær sem fæddar eru 2004-2007, en leyfilegt að nota eldri leikmenn sem ekki spiluðu í fyrri hálfleik með meistaraflokki í næsta leik á undan. Það nýtti liðið sér þó aðeins einu sinni í bikarkeppninni, þegar Harpa Jóhannsdóttir varði markið í úrslitaleiknum.
  • 17 - Meðalaldur hópsins er um 17,4 ár. Það skýrist af því að margar sem hafa komið við sögu í leikjum liðsins í sumar eru einnig gjaldgengar í 3. og 4. flokki, fæddar 2008-2010.
  • 27 - Alls komu 27 knattspyrnukonur við sögu í leikjunum sem liðið spilaði í bikarkeppninni. Af þessum 27 er ein enn gjaldgeng í 4. flokki (2010) og sjö í 3. flokki (þrjár fæddar 2008 og fjórar 2009).

Þessar komu við sögu í leikjum liðsins í bikarkeppninni.